*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Innlent 18. ágúst 2016 14:55

Allt að þriðjungs veltuaukning

Tæknifyrirtæki í sjávarklasanum juku veltu sína um 12% á síðasta ári og er hún nú á bilinu 60-65 milljarðar króna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Velta tæknifyrirtækja í sjávarklasanum jókst um 12% á árinu 2015 og er hún nú um 60-65 milljarðar króna. Árið á undan jókst veltan um 11%, en hjá einstökum fyrirtækjum jókst veltan um allt að þriðjung á síðasta ári.

Virðist bestur gangur vera hjá fyrirtækjum í fiskvinnslutækni sem eru með veltu yfir milljarði króna  og fer fjöldi þeirra fyrirtækja vaxandi.

Marel og Hampiðjan með þriðjung veltunnar

Kemur þetta fram í greiningu Íslenska sjávarklasans, en tæknigeiri sjávarklasans samanstendur af milli 70 og 80 fyrirtækjum sem þróa, framleiða og selja tækja- og hugbúnað fyrir báta, skip og fisk- og matvælavinnslur.

Marel og Hampiðjan eru langstærst og er samanlögð velta þeirra um þriðjungur af heildarveltu geirans á síðasta ári. All nokkur fyrirtæki hans taka þó stórt stökk og má þar nefna Skagann/3X og Völku. Jafnframt virðast ýmis önnur minni fyrirtæki vera að eflast til muna og auka veltu sína umtalsvert milli ára.

Fiskvinnslu- og kælilausnir vaxa hraðast

Örasti vöxturinn er í fiskvinnslu- og kælilausnum en hægari vöxtur er hjá fyrirtækjum í veiðarfæratækni, bátum og skipatækni.

Jafnframt virðast ýmis minni sérhæfð hátæknifyrirtæki vera að styrkja grundvöll sinn, og má þar nefna fyrirtæki sem eru í fiskeldislausnum, fyrirtæki með öryggisbúnað, stjórnkerfi fyrir veiðar, veiðarfæratækni, róbóta, hitastigsbúnað og í ýmsum tæknibúnaði sem sparar orku.

Forskot heildstæðra lausna

Þau fyrirtæki sem lagt hafa áherslu á heildstæðar lausnir og upplýsingatækni samhliða málmsmíði virðast vera að ná umtalsverðu forskoti. Hafa nokkur hraðvaxandi tæknifyrirtæki í fiskvinnslutækni aukið veltu sína um allt að 100-200% á síðustu 3-4 árum.

Stikkorð: Marel Sjávarklasinn Hampiðjan Skaginn/3X Valka.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is