Nýsamþykktar breytingar um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða eru jákvæðar að sögn viðmælenda Viðskiptablaðsins. Breytingarnar styðja við aukið framboð á fjárfestingarkostum og auðvelda fyrirtækjum að afla fjár til uppbyggingar. Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, telur fimm til tíu fyrirtæki líkleg til að stíga fram og skrá sig á First North markaðinn í kjölfar lagabreytinga.

Í síðustu viku var frumvarp um First North samþykkt á Alþingi sem felur í sér að fjárfestingarheimildir fyrir lífeyrissjóðina voru rýmkaðar. Í frumvarpinu er lífeyrissjóðum heimilað að fjárfesta allt að 5% af hreinni eign lífeyrissjóðs í verðbréfum sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF), líkt og First North markaður, til viðbótar þeim 20% sem þegar er heimilt að fjárfesta í óskráðum bréfum samkvæmt lífeyrissjóðslögum. Félög á First North eru því aðgengilegri. Samkvæmt greiningu IFS má búast við því að smærri og meðalstór fyrirtæki sjái sér hag í því að skrá sig á þann markað.

Hrefna Ö. Sigfinnsdóttir,framkvæmdastjóri Markaða hjá Landsbankanum, segir þær breytingar sem gerðar voru á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóðanna vera jákvætt skref í þá átt að efla First North markaðinn á Íslandi. „Verið er að veita lífeyrissjóðunum aukið svigrúm til að fjárfesta í óskráðum verðbréfum sem nemur 5% af hreinni eign þeirra, með þeim skilyrðum að um sé að ræða f j á r f e s t i n g u í verðbréfum sem eru á First North markaðnum á Íslandi. Því myndast hvati fyrir félög, sem jafnvel uppfylla ekki skilyrði aðalmarkaðar Kauphallarinnar en vilja sækja sér fjármagn og/eða laða lífeyrissjóðina að sem fjárfesta, til að vera á First North. Félög á First North eru eftir sem áður ekki skráð á skipulegan verðbréfamarkað samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti en þau fá með þessum breytingum ákveðið forskot þegar lífeyrissjóðirnir bera saman óskráða fjárfestingarkosti þar sem þeir geta nú flokkað félög á First North á Íslandi sérstaklega, í stað þess að flokka þau meðal óskráðra fjárfestinga eins og áður,“ segir Hrefna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .