Ragnhildur Helgadóttir er nýráðin forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík. Hún segir viðhorf til lögfræðinga hafa orðið neikvæðara eftir hrun. Hún telur að lögfræðin og lagaumhverfið sé mikið að breytast og að háskólarnir þurfi að aðlaga sig að því. Næstu árin verði krítísk í fjármögnun háskólanna. Mikilvægt er að viðhalda gæðum háskólanna því einungis sé hægt að nema íslenska lögfræði hér á landi.

Ragnhildur var við nám í Bandaríkjunum í fjögur ár. Spurð um muninn á akademíska umhverfinu þar og á Íslandi segir hún það hafa mest með stærðarmun að gera. „Bandaríkin búa að því að hafa svo margt fólk. Það er svo margt lagalegt sem hefur verið skoðað og fólk getur leyft sér að sumu leyti svo mikla sérhæfingu og svo miklar öfgar. Það eru margir að vinna í tilteknum fögum og spurningum. Lögfræðin sem fræðiheimur er svo mikið mönnuð og svo fjölbreytileg. Í íslenskri lögfræði er það nú þannig, þrátt fyrir að við útskrifum marga lögfræðinga, að langflestir nemendur verða stromphissa þegar þeir eru komnir nokkrar vikur inn í skrif á lokaritgerð og komast að því að ekkert hafi verið skrifað um efnið. Stór hluti lokaritgerða tekur á nýjum spurningum í íslenskri lögfræði og það er svolítið sérstakt. Rannsóknirnar á Íslandi þurfa einnig að vera praktískar og geta nýst öðrum. En það er þó ákveðinn styrkur þeirra. Með stórum fræðiheimi verður hann mjög fjölbreyttur og mikið samtal verður. Á Íslandi erum við mikið hvert fyrir sig. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir íslenska lögfræðinga að vera í alþjóðlegum tengslum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .