Katla lét á sér kræla á dögunum þegar öflug jarðskjálftahrina hófst norðarlega í Kötluöskunni aðfaranótt mánudags. Tveir af skjálftunum mældust yfir fjórum stigum. Jarðfræðingar hafa staðfest að um sé að ræða með stærri skjálftum sem hafi orðið í öskjunni en þrátt fyrir það sé ennþá ekkert sem bendi til þess að um eldgosóróa sé að ræða.

Áhugi manna á Kötlu er eðlilegur enda um að ræða eitt virkasta eldfjall landsins og er þekkt fyrir mikil og skaðleg gos. Samkvæmt upplýsingum á Vísindavef Háskóla Íslands er talið að fjallið hafi gosið að minnsta kosti 20 sinnum síðan Ísland byggðist og hefur tíminn sem liði hefur milli gosa verið allt frá 13 árum og allt upp í 80 ár. Nú eru hins vegar 98 ár frá því að síðasta stóra Kötlugos var, árið 1918, og því margir sem eru farnir að undirbúa sig undir næsta gos. þá hafa jarðfræðingar jafnframt bent á það á síðastliðnum árum að ýmislegt veiti vísbendingar um yfirvofandi Kötlugos, svo sem viðvarandi landris, aukin jarðskjálftavirkni og aukinn jarðhiti.

Er stærstu atvinnugrein landsins ógnað?

Eftir gríðarlega aukningu undanfarin ár er ferðaþjónustan nú sú atvinnugrein sem skapar mestar útflutningstekjur fyrir íslenska þjóðarbúið en um 1,3 milljónir ferðamanna komu til landsins í fyrra og líklegast að þeir verði töluvert fleiri í ár. Það er því eðlilegt að menn spyrji sig hvernig íslenskir ferðaþjónustuaðilar myndu bregðast við slíku eldgosi. Áhugi erlendra aðila virðist mikill á íslenskum eldfjöllum ef marka má misvísandi frétt Independent um skjálftana í Kötlu sem birtist á dögunum og hefur verið deilt yfir 16 þúsund sinnum á veraldarvefnum þegar þessi frétt er skrifuð. Fyrirsögn gefur til kynna að búast megi við Kötlugosi á næstu dögum.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri hjá Samtökum ferðaþjónustunnar segir mikilvægt að halda því til haga að þrátt fyrir umfjöllunina sé ekkert sem bendi til þess að gos sé yfirvofandi í Kötlugos.

„Við lærðum mikið af gosinu í Eyjafjallajökli árið 2010 og í kjölfarið varð til eins konar aðgerðahópur sem er kallaður til þegar eldgos og aðrar sambærilegir atburðir eiga sér stað tengdir íslenskri náttúru. Þessi hópur var m.a. virkjaður í kjölfar gossins í Holuhrauninu,“ segir Helga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.