Líkt og búist var við verður nettó útgáfa Íbúðalánasjóðs (ÍLS) verulega neikvæð á árinu. Það má meðal annars rekja til lítilla útlána og stöðugra inngreiðslna af eldri lánum. Greiningardeild Arion banka fjallar um útgáfuáætlun ÍLS í dag og segir að beðið hafi verið eftir áætluninni með mikilli eftirvæntingu frá ársbyrjun. Segir í Markaðspunktum að allt bendi til þess að sjóðurinn þurfi á að halda enn frekara fjármagni frá ríkinu á næstu árum.

Greiningardeildin bendir á að útgáfa ÍLS hefur verið neikvæð síðustu fjögur ár, þ.e. afborganir eru hærri en útgáfa nýrra bréfa. „Fram kemur í útgáfuáætluninni að útgáfa íbúðabréfa verði 40-50 milljarðar króna, ný útlán verði 27-35 milljarðar króna og að greiðslur Íbúðalánasjóðs af útgefnum skuldabréfum nemi 65-73 milljörðum króna. Nettó útgáfa verður því neikvæð um 15-33 milljarða króna,“ segir í Markaðspunktum.

Úr Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka:

„Ríkið mun leggja Íbúðalánasjóði til nýtt eigið fé í formi óverðtryggðs ríkisskuldabréfs, RIKH 18, en stærð framlagsins nemur 33 milljörðum króna. Fram kemur í útgáfuáætluninni að Íbúðalánasjóður muni kanna möguleika á sölu bréfsins sem gæti þá orðið til þess að verðtryggð útgáfa verði minni á móti. Þetta þarf ekki að koma á óvart þar sem eignir og skuldir Íbúðalánasjóðs eru að langstærstum hluta verðtryggðar og með nokkuð langan meðaltími á meðan hið áður nefnda skuldabréf er óverðtryggt og með millilangan meðaltíma. Það er með öllu óvíst hvort sjóðnum takist að selja bréfið og þá hversu stóran hluta þess. Til samanburðar má benda á að nettó útgáfa ríkissjóðs á þessu ári nemur 24 milljörðum króna.

33 milljarðar króna gufa upp

Samhliða birtingu útgáfuáætlunar birti Íbúðalánasjóður fréttatilkynningu um afskriftir m.a. vegna aðgerða í þágu yfirveðsettra heimila og um leið eiginfjárstöðu sjóðsins. Þar kemur í ljós að afskriftarþörfin er álíka mikil og eiginfjárframlagið og því helst eiginfjárhlutfall sjóðsins nokkurn veginn óbreytt þrátt fyrir 33 milljarða króna innspýtingu frá ríkinu.“

Samkvæmt langtímamarkmiði skal eiginfjárhlutfallið vera yfir 5%. Segir í Markaðspunktum að ljóst sé að marga tugi milljarða vantar upp á til að eiginfjárhlutfall sjóðsins verði við 5% markmiðið, sérstaklega þegar litið er til þess að framundan liggja mögulega fyrir enn frekari afskriftir. Allt bendir til þess að enn frekari innspýtingarþörf sé framundan frá ríkinu á næstu árum.