„Það má segja að þetta séu fjögur tímarit sem staflað hefur verið ofan á hvert annað undir einni kápu. Tímaritinu, sem er 148 blaðsíður, er skipt upp með fjórum forsíðum en fremst er mannlegi hlutinn með viðtölum og greinum, svo kemur tíska, heimili og hönnun og síðast matarumfjöllun og fjöldi uppskrifta. Við vildum bjóða upp á allt á einum stað því við teljum að markhópur okkar hafi áhuga á þessu öllu,“ segir Björk Eiðsdóttir annar ritstjóra MAN sem kom út í fyrsta skipti í morgun.

Björk Eiðsdóttir og Elín Arnar ritstýra tímaritinu saman. Þær eru þrautvanar og reyndir blaðamenn en þær störfuðu báðar sem blaðamenn og síðar ritstjórar hjá Birtíngi. Elín var ritstjóri Vikunnar og Björk var ritstjóri Séð og heyrt.

En hvernig ætli þeim líði í dag þegar þeirra eigið blað kemur út í fyrsta skipti? „Við erum náttúrlega með allt undir, fjárhagslega og andlega. En fegurðin er sú að geta stjórnað ferðinni algjörlega sjálfur. Og ekki bara hvað varðar stefnu tímaritsins heldur líka markaðssetningu þess og viðskiptahugmyndarinnar í heild. Og við erum ekki bara tvær heldur eru tvær mikilvægar manneskjur með okkur, þær Sunna Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri og Auður Húnfjörð auglýsingastjóri. Þetta krefst mun meiri orku en ef vel tekst til þá er umbunin væntanlega meiri. Það á reyndar eftir að koma í ljós hvernig viðtökurnar á markaðnum verða en auglýsingamarkaðurinn hefur tekið okkur ótrúlega vel og eiginlega framar öllum vonum,“ segir Elín.

Björk segir að þær hafi oft spáð í að það væri sniðugt að gefa út tímarit sem biði upp á allt á einum stað, sérstaklega á þessum litla markaði sem Ísland er. „Það hefur líka alltaf verið fjarlægur draumur að gera eitthvað sjálf. En svo þarf einfaldlega eitthvað jafn drastískt til, svo maður láti slag standa, eins og til dæmis það að standa uppi atvinnulaus einstæð móðir,“ segir Björk. Elín bætir við að eiginlegur markhópur blaðsins séu konur á öllum aldri en karlar séu alls ekki útilokaðir. „Margir karlmenn hafa áhuga á matargerð og hönnun og í hverju tölublaði ættu þeir að geta fundið umfjöllun eða viðtal í mannlega kaflanum sem vekur áhugann,“ segir Elín og Björk bætir við að lokum: „Okkar sýn er sú að MAN verði eitt af þessum rótgrónu íslensku vörumerkjum á tímaritamarkaðnum hvort sem um er að ræða prent eða netið.“

Forsíða MAN.
Forsíða MAN.