Skýrsla um síðari einkavæðingu var kynnt í dag á blaðamannafundi. Þar kom fram að ríkissjóður tók á sig í heildina 296 milljarða áhættu.

Á blaðamannafundinum tóku Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar og Guðlaugur Þór Þórðarson varaformaður, fram að erfitt hafi verið að nálgast upplýsingar til að skoða þetta mál heildrænt. Guðlaugur Þór lagði sérstaka áherslu á það í máli sínu að hér kæmu fram nýjar upplýsingar og að það væri Alþingis, og almennings að meta þær. Hann taldi málið væri þess eðlis að hægt væri að læra af því.

Erfitt að nálgast gögn

Vigdís, tekur fram að neyðarlögin hafi verið sett og að Fjármálaeftirlitinu hafi verið gert að stofna nýju bankana. Þó hafi þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, tekið „pólitíska ákvörðun um að færa valdið frá FME í Fjármálaráðuneytið.“ Einnig bætir hún við að þegar þessi leið var farin, þá þýddi það að ef að hagnaður hefði verið á nýju bönkunum, hefði það runnið til bankanna sjálfra, en ef að hefði verið tap, hefði það fallið á hendur skattgreiðenda.

„Það sem vakti athygli mína var að þessi gögn voru ekki aðgengileg og það þurfti að hafa mikið fyrir því að fá þau“ tók Guðlaugur Þór fram á fundinum. Einnig kom fram í máli hans að: „Allt er gott sem endar vel“ og að það hafi verið vegna aðgerða núverandi ríkisstjórnar varðandi stöðugleikaframlögin og almennum efnahagsbata að það var ekki sjáanlegur skaði sem skeði fyrir hinn almenna skattgreiðenda í þessu máli.

Eftirlitshlutverk fjárlaganefndar í verki

Þessi skýrsla var gerð að frumkvæði meirihluta fjárlaganefndar og tóku Guðlaugur Þór og Vigdís fram á fundinum að þau höfðu borgað fyrir hana úr eigin vasa, en að féð hafði ekki runnið úr vösum skattgreiðenda. Töldu þau þetta mikilvægur hluti eftirlitshlutverks löggjafans. Þar er vísað í opinber gögn og telja aðilarnir sem kynntu skýrsluna fyrir hönd fjárlaganefndar mikilvægt að þessi gögn liggi fyrir.

Aðspurð að því hvort að málið gengi eitthvað lengra, eða hvort að það yrðu einhver eftirköst, þá töldu bæði Vigdís og Guðlaugur Þór, það ekki vera fjárlaganefndar að taka málið lengra. Það væri hlutverk annara aðila á borð við Umboðsmanns Alþingis. „Ég held að við gerum ekki meira á þessu kjörtímabili“ sagði Guðlaugur Þór. Hann bætti við að: „Ég vona að það sem liggi hérna fyrir geti verið góður grundvöllur til að læra af mistökum fortíðar.“ Guðlaugur kallaði eftir málefnalegri umræðu þar sem að upplýsingar lægju fyrir.

Einnig kom fram að þetta snérist ekki um að ná sér niður á einhverjum, en hins vegar er það sem okkur vantar er að heildarmyndin liggi fyrir. „Þetta snýst ekki um dómhörku“ sagði Guðlaugur Þór að lokum.