Flestir markaðsaðilar búast við 75-100 punkta (0,75- 1 prósentustig) hækkun stýrivaxta á næsta fundi peningastefnunefndar Seðlabankans eftir tvær vikur samkvæmt könnun Viðskiptablaðsins.

Verðbólga hefur sem kunnugt er reynst þrálátari en flestir höfðu talið þrátt fyrir á annan tug stýrivaxtahækkana síðastliðin tvö ár. Hún mælist nú 9,9% og hefur dansað í kringum 10 prósentin allt þetta ár.

Margir hafa varað við því að ef ekki takist að ná fram áþreifanlegri lækkun verðbólgu og ekki síður verðbólguvæntinga fyrir komandi kjarasamningslotu næsta vetur gætu þeir samningar byggt á forsendum um áframhaldandi verðbólgu og þannig orðið til þess að festa hana enn frekar í sessi. Nýjustu fregnir á þeim vettvangi benda til þess að framundan sé hörð barátta. Þá á stór hópur fólks með húsnæðislán á föstum vöxtum von á allt að og jafnvel yfir tvöföldun vaxtakjara á næstu misserum.

Forsvarsmenn Seðlabankans hafa sagst vera einir á báti í baráttunni við verðbólguna á meðan ríkissjóður er rekinn með 120 milljarða króna halla samkvæmt fjárlögum og jafnvel útlit fyrir að hann reynist enn meiri þegar upp er staðið.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaði vikunnar sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.