Krónan hefur sveiflast mikið í vikunni enda hafa vinsældir hennar verið miklar síðustu daga og hún verið mikið í fréttunum. Krónan veiktist um 0,25% á mánudaginn, önnur 0,82% á þriðjudaginn og loks veiktist hún um 1,97% á miðvikudaginn. Þessa þrjá daga vikunnar hafði krónan samanlagt lækkað um 2,9%. Í gær varð þó viðsnúningur og krónan styrktist um 1,82%.

Athygli vekur að veikingin fyrstu þrjá viðskiptadaga vikunnar varð þrátt fyrir að samtals 4,5 milljarða krónubréfaútgáfu á sama tímabili, en krónubréfaútgáfan verður vanalega til styrkingar krónunnar. Veikingin fyrr í vikunni átti að mati sérfræðinga rætur að rekja til þrálátrar umræðu í fjölmiðlum um áhrif þess að bankarnir myndu fara að skrá eigið fé sitt í evrum. Þá hefur neikvæð umræða um krónuna og framtíð hennar hreyft krónuna þó umdeilt sé hversu mikil áhrif pólitískt karp af þessu tagi hefur. "Gjaldeyrismarkaðurinn er mjög taugaveiklaður um þessar mundir og auðvelt að setja hann úr jafnvægi," segir Ásgeir Jónsson forstöðumaður greiningar Kaupþings.

"Þessar sveiflur koma til með að halda áfram," segir Björn Rúnar Guðmundsson sérfræðingur greiningardeildar Landsbankans. Líklegast að krónan haldi áfram að sveiflast töluvert. "Þessi umræða um framtíð krónunnar og möguleika þess að hér verði skipt yfir í evrur virðist vera nýi sveifluvaldurinn á taugaveikluðum gjaldeyrismarkaði," segir Björn Rúnar.

Að mati Ásgeirs er allt evrutal stormur í vatnsglasi. "Allar þessar hugmyndir sem hafa komið fram um einhliða upptöku evrunnar eru óraunhæfar. Það yrði aldrei raunhæft að taka hér upp evru án þess að ganga einnig í gegnum Evrópusambandsaðild," segir hann. Í efnahagsástandinu sem ríkir hér nú, værum við ekki betur sett með evru. Við værum verr sett ef eitthvað er þar sem lágt vaxtastig Seðlabanka Evrópu myndi ýta undir þensluna. Með evru verður hagstjórn erfiðari þar sem sjálfstæð peningamálastefna væri úr sögunni og allur þunginn myndi lenda á ríkisfjármálunum. Rétturinn til þess að gefa út sína eigin mynt er hluti af fullveldi landsins og verður ekki framseldur eða gefinn upp á bátinn nema víðtækri pólitískri samstöðu. Efnahagslegir hagsmunir skipta vitaskuld miklu máli fyrir upptöku evrunnar en þegar allt kemur til alls er þetta pólitísk aðgerð," segir Ásgeir. "Markaðurinn ákveður ekki hvort að hér verði tekinn upp evra," segir Björn Rúnar.