*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 25. maí 2018 15:15

Allt of fáar lóðir í borginni

Einungis 16 þúsund af 70 þúsund manna áætlaðri fjölgun íbúa komast fyrir á þeim lóðum sem búið er að samþykkja.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Á höfuðborgarsvæðinu eru nú um 1.400 óbyggðar en samþykktar íbúðarlóðir en þar er heimilt að byggja rúmlega 7.200 íbúðir.

Samtök iðnaðarins benda á þetta þýði að ef miðað er við 2,2 íbúa í hverri íbúð rúmi þær einungis 16 þúsund manns meðan svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins gerir ráð fyrir að íbúum svæðisins fjölgi um allt að 75 þúsund manns á næstu áratugum. Þar af er gert ráð fyrir að til ársins 2025, þurfi að hýsa allt að 38 þúsund manns.

Þegar skoðað er hlutfall lausra lóða af flatarmáli hvers sveitarfélags fyrir sig er höfuðborgin sjálf, Reykjavík í lægra lagi, en langhæsta hlutfallið er í Kópavogi, Seltjarnarnesi og Garðabæ. Þar er hlutfall lausra lóða 0,25%, 0,21% og 0,20%, í þeirri röð, en í Rekjavík er hlutfallið einungis 0,17%. Loks koma Hafnarfjörður með 0,16% og Mosfellsbær með 0,11%.