Allt flug Wow air var stöðvað í nótt samkvæmt tilkynningu frá félaginu. Það segist vera á lokametrunum að ljúka hlutafjáraukningu og ekki verði flogið fyrr en henni sé lokið. Frekari upplýsingar verða veittar klukkan 9 í dag. Félagið þakki farþegum stuðninginn og biðjist velvirðingar á óþægindunum.

Félagið hefur unnið hörðum höndum að því að safna fjármagni í vikunni eftir að í ljós kom að Icelandair hefði fallið frá yfirtöku sinni á Wow air. Skuldabréfaeigendur og hluti kröfuhafa greindu frá því í vikunni að þeir hefðu samþykkt að breyta lánum sínum í hlutafé í Wow air. Þá hefur verið stefnt að því að safna fimm milljörðum króna í nýtt hlutafé inn í reksturinn.

Á vefsíðu félagsins segir svo að verið sé að ganga frá öllum gögnum og pappírum varðandi hlutafjáraukninguna. Farþegar verði látnir vita með tölvupósti eða sms-skilaboðum þegar hægt verður að veita frekari upplýsingar.

Tilkynning Wow air í heild sinni:

„WOW air er á lokametrunum að klára hlutafjáraukningu við nýjan eigendahóp á félaginu. Allt flug hefur verið stöðvað þangað til þeir samningar verða kláraðir. Nánari upplýsingar verða gefnar kl. 9. Félagið þakkar farþegum fyrir stuðninginn og biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta veldur.“