Hlutabréfamarkaðir í Evrópu hækkuðu við upphaf viðskipta í morgun í kjölfar þess að Nikkei hækkaði um rúmlega 7% í viðskiptum dagsins.

Stoxx Europe 600 hækkaði um 2,7% við upphaf viðskipta, en líklegt er að markaðurinn hafi verið að bregðast við hækkunum í Japan og á Wall Street á föstudag. FTSE 100 hefur hækkað um 1,91%. DAX hefur hækkað um 2,76% og CAC 40 hefur hækkað um 3,28% í viðskiptum dagsins.

Hlutabréf í svissneska bankanum Credit Suisse hafa hækkað um 3,21% það sem af er degi, en frá upphafi viðskipta á föstudag hafa bréfin hækkað um 9,6%. Á fimmtudaginn náðu bréfin í bankanum lægsta gildi sem þau höfðu náð í 27 ár. Hlutabréf í HSBC hafa hækkað um 1,19% í viðskiptum dagsins, en bankinn tilkynnti í morgun að hann ætlaði að halda höfuðstöðvum sínum áfram í London.