Arion banki býður Pennann til sölu Ákveðið hefur verið að bjóða til sölu allt hlutafé í Pennanum á Íslandi ehf. sem er í eigu Eignabjargs ehf., dótturfélags Arion banka. Í tilkynningu Arion banka segir að Penninn sé leiðandi fyrirtæki á sviði skrifstofuhúsgagna, skrifstofuvara, gjafavöru og afþreyingar s.s. bóka, tímarita, myndbanda og geisladiska bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

Verslanir Pennans eru Eymundsson, Penninn, Grifill og Islandia. Hjá fyrirtækinu starfa um 300 manns og er velta félagsins um fimm milljarða. "Fjárfestar sem óska eftir að taka þátt í söluferlinu eru beðnir um að hafa samband við fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hf. Skulu þeir leggja fram trúnaðaryfirlýsingu á þar til gerðu formi ásamt því að leggja fram nauðsynlegar upplýsingar og gögn sem staðfesta að ofangreind skilyrði séu uppfyllt. Í kjölfarið fá fjárfestar afhendar frekari upplýsingar um tímasetningar og skilmála söluferlisins auk upplýsinga um fjárhag og starfsemi félagsins," segir í tilkynningu Arion banka.