Athugun Fjármálaeftirlits og eftirlitsaðila á starfsháttum Dróma staðfesta að þeir eru faglegir og í samræmi við kröfur um góða viðskiptahætti.  Drómi heldur utan um þrotabú Frjálsa fjárfestingarbankans og SPRON.

Í tilkynningu frá Dróma kemur frram að ástæða úttektar á félaginu megi rekja til mikillar opinberrar umræðu og staðhæfinga umboðsmanns skuldara um starfshætti Dróma. Niðurstöður beggja eftirlitsaðila voru nánast samhljóða.

  • Athugun á ábyrgðarskuldbindingum staðfesti að Drómi hafi unnið í samræmi við reglur og samkomulög um ábyrgðarskuldbindingar. Voru engar athugasemdir gerðar.
  • Varðandi endurútreikninga gengislána kom ekkert fram sem gaf til kynna að túlkun Dróma á því hvaða lán teldust til ólögmætra gengislána væri þrengri en túlkun annarra fjármálafyrirtækja.
  • Engar athugasemdir voru gerðar við framkvæmd Dróma á 110% leiðinni. Jafnframt var það niðurstaðan að verðmöt sem Drómi hefur lagt til grundvallar við vinnslu umsókna gefi raunhæfa mynd af markaðsvirði eigna.
  • Til þess að gæta hagsmuna viðskiptavina við skuldskeytingu gengistryggðra lána mæltist Drómi til þess að kveðið yrði á um það með skýrum hætti að hugsanleg endurgreiðsla vegna endurútreiknings tilheyrði fyrri skuldara, á meðan ekki lá fyrir skýr niðurstaða Hæstaréttar. Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd og taldi að félagið hefði átt að láta við það sitja að vekja athygli á þeirri réttaróvissu sem uppi var.
  • Athugun á svartíma leiddi í ljós að í flestum tilvikum voru svör félagsins við erindum viðskiptamanna innan eðlilegra tímamarka, þó finna mætti tilvik sem dregist hafði að svara. Ekki voru gerðar athugasemdir við tímalengd svörunar vegna erinda viðskiptavina.