„Þetta er bara allt í lukkunnar standi núna þetta árið,“ segir Jóhannes Héðinsson, strandveiðimaður á Patreksfirði. Almenn ánægja er með strandveiðina í ár, ólíkt því sem var í fyrra.

„Í fyrra var þetta alveg sérlega leiðinlegt, maður bara þrjóskaðist við. Það voru endalausar sunnanáttir og ekkert verð fyrir fiskinn,“ segir Jóhannes.

„En nú snýst þetta alveg við. Það eru miklu betri gæftir og fiskverðið allt annað.“

Jóhannes segist hafa getað nýtt sér alla dagana og fer þá á hefðbundnar veiðislóðir.

„Við förum mikið út í grunnkant og þessar hefðbundnu 16 til 18 mílur, ýmist beint út eða vestureftir. Það virðist vera fiskur þarna víða, og það virðist vera mikið æti en hann er eitthvað voðalega dyntóttur, þorskurinn,“ segir hann.

„Það hafa komið þó nokkrir dagar þar sem liggur við að nota þurfi allar mínúturnar. Það gerist þegar maður dettur einhvern veginn út úr þessu. Það koma alltof margir þannig dagar þar sem maður þarf bara að beita þrjóskunni.“

Ufsinn telur í kílóum
Í heildina hefur veiðin verið góð, sérstaklega í júní.

„Þá fékk ég svolítið af ufsa með, hann telur í kílóum.“

Þótt veðrið hafi reyndar ekki alltaf boðið upp á siglingar út á miðin, þá féllu samt ekki niður dagar.

„Það var á tímabili þegar var leiðinlegt veður að maður fékk fisk innanfjarðar, hérna í Flóanum sem við köllum.“

Landsamband smábátaeigenda tók saman yfirlit yfir strandveiðina þegar hún var hálfnuð, um mánaðamótin maí-júní, og birti þá lista yfir aflahæstu bátana.

Bátur Jóhannesar, Héðinn BA 80, varð þar efstur á lista. Jóhannes segir að það hafi komið sér dálítið á óvart, enda sé hugurinn ekkert við meting af þessu tagi.

„Ég var ekkert að spá í þetta. Það er helst að maður reyni að fara ekkert fram yfir þessi 774 kíló, nema 774 og hálft kannski. Það er enginn akkur í að fara fram yfir, maður borgar það bara til baka. Sem er ágætt, maður þarf bara að vanda sig.“

Fjölmargir smábátar eru gerðir út á strandveiðar frá Patreksfirði, svo margir að Jóhannes er ekkert að giska á fjöldann. Almennt hefur þeim gengið vel þetta árið, segir Jóhannes.

Var lengi á snurvoð
Hann var áður lengi á Brimnesinu ásamt bróður sínum, Frey.

„Ég var þar skipstjóri í mörg ár, bæði á línu og snurvoð, en eiginlega bara eingöngu snurvoð seinni árin. Svo keyptum við bræðurnir okkur sitthvorn smábátinn, það var minnir mig tveimur árum áður en strandveiðarnar byrjuðu.“

Nú eru þeir báðir á strandveiðum, Freyr á bátnum Stapa BA, en þeir bræður eru frá Patreksfirði, synir Héðins Jónssonar skipstjóra þar.

Jóhannes er að lokum spurður hvort hann vilji sjá fleiri breytingar á strandveiðikerfinu.

„Ja, það er þá helst – menn vilja alltaf meira þegar búið er að rétta litla puttann, þá endar það með allri hendinni. En það væri voðalega fínt ef menn gætu valið að fara sunnudagana til að landa á mánudögum af því það hittist nú einhvern veginn þannig á að það er oft gott veður um helgarnar. Það hefur ekkert upp á sig að róa föstudagana og laugardagana, því þá er fiskurinn orðinn of gamall þegar hann kemur í vinnslu á mánudegi.“

Svo bætir hann því við að ekki væri verra ef Fiskistofa gæti gert upp veiðarnar mánaðarlega, í staðinn fyrir hvern túr. Stundum fari menn örlítið yfir en auðvelt sé að jafna það út yfir mánuðinn.

„Þeir myndu líka spara sér mikla vinnu með þessu,“ segir Jóhannes.