Þjóðarsjóður Kúveit, Kuwait Investment Authority (KIA), glímir nú við erfiðar innbyrðisdeilur. Uppsögn Saleh al-Ateeqi, framkvæmdastjóra fjárfestingateymis sjóðsins í London, hefur varpað ljósi á valdabaráttu innan sjóðsins sem hefur til þessa látið lítið á sér bera. Breska dagblaðið Financial Times fjallaði ítarlega um deilurnar á dögunum.

„Það er allt í óreiðu þarna en nokkrar klíkur berjast nú gegn hver öðrum,“ er haft eftir einum sjóðstjóra sem fjárfestir fyrir hönd þjóðarsjóðsins.

KIA er fjórði stærsti þjóðarsjóður heims og jafnframt sá elsti en honum var komið á fót árið 1953. Eignir sjóðsins nema yfir 700 milljörðum Bandaríkjadala, þar af er rétt um helmingur í stýringu í London. KIA á meðal annars hlut í eignastýringarrisanum BlackRock og bandarísku bönkunum Citigroup og Merrill Lynch.

Á síðasta ári byggði þjóðarsjóðurinn upp stöður í Arion banka og Eik fasteignafélagi. KIA er sextándi stærsti hluthafi Eikar með 0,68% hlut sem er um 360 milljónir króna að markaðsvirði. Innherji greindi frá því að í lok síðasta árs fór KIA með 10,5 milljónir hluta, eða um 0,7% hlut í Arion banka sem er nú um 1,9 milljarðar króna að markaðsvirði.

Miklir annmarkar

Árið 2017 áttu ýmsar breytingar sér stað hjá KIA þegar Bader al-Saad lét af störfum sem forstjóri en hann hafði stýrt þjóðarsjóðnum í fjórtán ár. Arftaki hans, Farouk Bastaki, og ný stjórn hafa síðan unnið að því að nútímavæða sjóðinn.

Samkvæmt heimildarmanni FT kom það nýjum stjórnarmönnum hjá KIA í opna skjöldu þegar þeir uppgötvuðu að hlítni (e. comliance) og áhættustýring væri ekki sem skyldi ásamt því að ekki voru til staðar skilvirkar árangursmælingar fyrir sjóðstjóra. Annar heimildarmaður sagði að árangurstengt launakerfi sjóðsins hafði ekki tekið breytingum á síðustu þremur áratugum.

„Þessir annmarkar voru með ólíkindum“ sagði einn heimildarmaður nátengdur KIA og Ateeqi.

Nýi stjórinn hristi upp í verklaginu

Framangreindur Saleh al-Ateeqi, sem starfaði um tíma sem ráðgjafi Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, var ráðinn af ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey árið 2018. Honum var falið það verkefni að nútímavæða verklag á skrifstofu sjóðsins í London. Undir hans stjórn var viðskipta- og hlítnikerfi sjóðsins uppfært, en mörg þeirra voru enn handvirk fyrir komu hans. Þá setti hann á fót fjárfestingarnefnd og bætti við nýjum stöðum á borð við forstöðumanni fjárfestinga og tæknistjóra.

Ateequi vildi einnig betri yfirsýn yfir fjárfestingar sjóðsins og lét þróa mælaborð til að fylgjast með ákvörðunum sjóðstjóranna í rauntíma. Verkefninu, sem lauk síðasta haust, var mótmælt af starfsmanni upplýsingatæknideildar sjóðsins, ekki síst vegna 300 þúsund dala kostnaðar þess eða sem nemur yfir 40 milljónum króna.

Yfirmaður upplýsingatæknideildarinnar hefur síðan þá sagt upp störfum eftir að hafa tekið sér veikindafrí vegna kvíða eftir stöðug átök á milli deildarinnar og Ateeqi vegna kostnaðar og deilna um þróun á nýjum kerfum.

Nokkrir núverandi og fyrrum starfsmenn sjóðsins segja að stjórnarhættir Ateeqi hafi vakið upp gremju innan starfshópsins og leitt af sér mikla starfsmannaveltu. Í það minnsta 53 starfsmenn í fullu starfi, þar á meðal tíu starfsmenn mannauðsdeildarinnar, létu af störfum á fjögurra ára tíma Ateeqi en stöðugildi KIO í London eru um 100 talsins. Markaði það breytingu hjá sjóðnum en algengt var að fólk var í sama starfi í meira en áratug.

Heimildarmaður náinn Ateeqi ítrekaði þó að starfsmannaveltan væri undir meðaltali í breska fjármálageiranum. Nokkrir starfsmenn telja að Ateeqi hafi hrist upp í sjóðnum og stutt við framúrskarandi starfsmenn. Aðrir líktu starfsumhverfinu við eineltisupplifun og segja að Ateeqi hafi átt það til að öskra á starfsmenn á fundum og ýtt út fólki sem drógu ákvarðanir hans í efa. Stuðningsmenn hans hafna þessum ásökunum.

Saleh al-Ateeqi
Saleh al-Ateeqi

Í dómsmálum við fyrrum starfsmenn

KIA í London á í deilum við fyrrum starfsmenn sjóðsins fyrir dómstólum í Bretlandi. Eitt þessara mála snýr að brottrekstri á þremur stjórnendum á starfstíma Ateeqi fyrir meint samráð um að veita ósamþykktar launahækkanir áður en Ateeqi tók við en eftir að forveri hans hafði látið af störfum.

Skrifstofan í London hefur farið fram á að þessir þrír fyrrum stjórnendur, sem eru allir Bretar með búsetu í Bretlandi, verði ákærðir til saksóknara í Kúveit en viðurlög sem þar að lúta eru allt að lífstíðarfangelsi, samkvæmt ársskýrslu ríkisendurskoðunar Kúveit. Stjórnendur í höfuðstöðvum KIA í Kúveit óttast hins vegar að sakamál þar í landi geti skaðað samband við bresk stjórnvöld og kostað kúveiska ríkið himinháar fjárhæðir.