Efnahagslífið er að komast á réttan kjöl hér, dregið úr atvinnuleysi og kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist á sama tíma og hagvaxtarhorfur í Evrópu hafa versnað, að mati Seðlabankans. Fjallað er um málið í ritinu Fjármálastöðugleiki sem kom út í dag.

Í ritinu segir m.a. að á sama tíma og efnahagslífið hafi rétt úr kútnum hér hafi Bretar glímt við samdrátt frá lokum síðasta árs og nú séu því til viðbótar litlar horfur á hagvexti í Danmörku og fleiri löndum í norðurhluta Evrópu. Útlitið þykir sérstaklega slæmt í suðurhluta Evrópu, á Spáni, Portúgal, Ítalíu og Grikklandi og flæði fjármagn frá verst settu löndunum norður og ógni það fjármálastöðugleika í álfunni. Fram kemur í riti Seðlabankans að aðstæður í Evrópu, ekki síst á evrusvæðinu, geti haft neikvæð áhrif hér á landi.

„Hagvaxtarhorfur fyrir árið 2013 hafa versnað í flestum helstu viðskiptalöndum Íslands. Þar er nú spáð um 1,3% hagvexti á næsta ári en um 0,7% hagvexti á þessu ári samkvæmt meðalspá greiningaraðila,“ segir í ritinu.

Öðru máli gegnir um efnahagslífið hér en tekið er fram að hér stefni í 3% hagvöxt á árinu.

Fjármálastöðugleiki