*

miðvikudagur, 19. febrúar 2020
Innlent 20. júlí 2017 11:36

Allt kjötið frá Skotlandi

Hamborgarabúlla Tómasar stefnir að opnun 21. staðarins í Oxford, en keðjan veltir orðið á annan milljarð.

Ritstjórn

Stefnt er að því að 21. Hamborgarabúlla Tómasar verði opnuð í Oxford í Bretlandi, en nú eru 13 búllur starfræktar í sex löndum utan Íslands, þar sem eru sjö búllur. Eftir opnun tveggja nýrra veitingastaða keðjunnar í Osló í sumar eru þær nú orðnar þrjár þar í borg, tvær í Berlín, þrjár í London, þrjár í Danmörku, ein í Malmö í Svíþjóð og ein í Róm, Ítalíu.

Jafnframt vilji samstarfsaðilar opna búllu í Madrid á Spáni, og verið sé að leita að góðum stað í borginni að því er Morgunblaðið greinir frá. Tómas Tómasson veitingamaður sem keðjan er kennd við segist ánægður með viðtökurnar í Noregi, sem og í staðnum í Róm sem opnaði í nóvember síðastliðnum.

„Staðurinn er nokkur hundruð metra frá Vatíkaninu. Hann er við fjölfarna breiðgötu sem heitir eftir Júlíusi Sesar,“ segir Tómas. „Staðurinn fór hægt af stað en aðsóknin hefur aukist jafnt og þétt. Þetta verður enn betra í næstu viku þegar við fáum útisvæði. Þar getum við komið fyrir 30 sætum.“

Tómas segir jafnframt að pantanir á netinu séu að verða stór hluti af viðskiptunum í London og Berlín, í samstarfi við þjónustufyrirtæki. Allt kjöt á veitingastöðum keðjunnar kemur frá Skotlandi, þar með talið kjötið á Íslandi, nema að norskt kjöt er notað í Osló. Síðan er hluti af brauðinu bakað eftir sérstakri uppskrift í London.

Tómas áætlar að salan sé „vel rúmlega milljón borgarar á ári á öllum stöðunum,“ en ef miðað er við að salan á tilboði aldarinnar, vinsælasta skammtinum sem inniheldur borgara, franskar og kók, sé í kringum 1.800 krónur, má ætla að keðjan velti vel á annan milljarð árlega.