Sigtryggur Páll Sigtryggsson, framkvæmdastjóri Blikkáss, segir rekstur blikksmiðju vera mjög sveiflukenndan. Því hafi félagið keypt Funa ehf. árið 2003, sem er með meginstarfsemi í blikksmíði með reykrör og sölu eldstæða. Félögin eru í dag rekin undir einu merki, Blikkás – Funi.

„Kaupin á Funa komu einnig til vegna húsnæðisskorts hjá Blikkási á sínum tíma en við eigendur félagsins sáum ákveðna hagræðingu í því að geta samnýtt húsnæði Funa við Dalveg 28 og húsnæði Blikkáss á Skemmuvegi. En það vildi til að um sama leyti fengum við úthlutaða lóð að Smiðjuvegi 74 þar sem við byggðum síðan yfir bæði fyrirtækin,“ segir Sigtryggur sem segir aðalstarfsemi Funa síðan hafa verið rekstur arinverslunar, innflutningur og sala á eldstæðum, reykrörum og uppsetningu reykrörsbúnaðar.

„Einungis tveir starfsmenn eru á launaskrá hjá Funa, en þeir sjá um innkaup og sölu, en um þrjú ársverk eru hjá Blikkási, einvörðungu í smíði og uppsetningu reykröra og tengds búnaðar fyrir Funa. Vöxtur Funa á síðustu árum hefur þannig dregið áfram vöxt Blikkáss. Í seinni tíð höfum við síðan aukið vöruúrval okkar til að mæta sveiflukenndu rekstrarumhverfi, til dæmis aukið við ýmis aðföng fyrir sælureiti í sveitinni svo sem gufuðbaðshús, svefnskála, heita og kalda potta. Rekstur Funa er hægvaxandi en í stöðugum uppvexti, á meðan rekstur Blikkáss er sveiflukenndari, enda háðari byggingaframkvæmdum og innspýtingu í viðhaldsframkvæmdir frekar en Funi.“

Sigtryggur hefur áhyggjur af því að ekki skuli fleira ungt fólk sækja í iðnnám. „Við höfum haft því láni á að skipa að haldast vel á starfsmönnum og þeir sem á annað borð fara koma aftur. Vandinn liggur hins vegar í endurnýjun starfsmanna með iðnmenntun, en hún hefur ekki verið nægileg. Við Íslendingar erum með allt of marga lögfræðinga, en við höfum gleymt að framleiða iðnaðarmenn. Það hefur ekki verið nóg að gert í að skapa menntaumhverfi sem hvetur til iðnmenntunar síðustu áratugina, en það virðist þó horfa til betri vegar hjá okkur. Í dag erum við með þrjá iðnema sem eru frá rétt yfir tvítugt upp í þrítugt, en þeir störfuðu allir hjá okkur áður en þeir hófu námið.“

Í heildina hefur Blikkás – Funi á að skipa 23 starfsmönnum en Sigtryggur segir að til þess að brúa spennutímabil eins og nú ríkir á Íslandi hefur félagið þurft að grípa til verktaka og leiguliða.

„Það að fá starfsmenn í gegnum starfsmannaleigurnar hefur reddað okkur í gegnum erfiðustu hjallana, en við höfum oft misst þá aftur frá okkur loksins þegar þeir hafa öðlast þá þjálfun sem þurft hefur til að vinna hratt og vel. Nú erum við með einn mann lánaðan, en við höfum fært okkur meira yfir í að ráða fólk beint svo við missum þá ekki frá okkur þegar mest liggur við,“ segir Sigtryggur en hann sér ekki fram á að þurfa mikið af nýju starfsfólki á næstunni, jafnvel frekar draga úr.

„Við erum með góða verkefnastöðu fram yfir áramót og sé ég enga stóra breytingu í því framundan. Vegna þess hve uppteknir við höfum verið í uppsetningu loftræstikerfa vegna uppbyggingar í byggingargeiranum höfum við ekki getað sinnt okkar eigin framleiðslu sem slíkri. Við fórum nefnilega eftir hrun af stað með að framleiða flokkunarbox fyrir sorp sem verið hafa vinsæl hjá fyrirtækjum. Þú hefur ábyggilega séð þetta til dæmis á bensínstöðvum, þar sem þetta er komið á aðra hverja má eiginlega segja. Við höfum ekki haft undan í framleiðslu á þeim, en síðan erum við einnig að framleiða mótatengi fyrir steypumót, svokölluð Breiðfjörðsmótatengi. Við keyptum á sínum tíma framleiðsluréttinn á þeim og þau eru sívinsæl.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .