Rauð ljós tóku að loga á evrópskum hlutabréfamörkuðum í dag eftir að ríkisstjórnir Frakklands og Spánar tilkynntu um fyrirhugað skuldabréfaútboð. Þetta er þriðji dagurinn í röð sem hlutabréf lækka almennt á mörkuðunum.

Bæði löndin þurfa nú orðið að greiða fyrir ný lán dýrum dómi. Lántökukostnaður á spænsk ríkisskuldabréf til tíu ára hefur ekki verið hærri á öldinni. Á sama tíma er hafa Frakkar ekki greitt jafn hátt álag á skuldir sínar í hálft ár.

Bloomberg-fréttastofan greinir frá því að skuldakreppan á evrusvæðinu hafi valdið óróleika í röðum fjárfesta og það skilað sér í sveiflum á mörkuðum. Því til sönnunar hafi Stoxx 600-hlutabréfavísitalan farið úr plús í mínus allt að tíu sinnum innan sama viðskiptadags.

Helstu hlutabréfavísitölur lækkuðu í Bandaríkjunum í gær eftir að matsfyrirtækið Fitch varaði við því að skuldakreppan á evrusvæðinu hefði neikvæð áhrif á efnahagsreikning banka í Bandaríkjunum.

Nikkei-hlutabréfavísitalan hækkaði um 0,19% við lokun markaða í Japan í morgun. Á hinn bóginn hefur FTSE-vísitalan í Bretlandi lækkað um 0,635, DAX-vísitalan í Þýskalandi lækkað um 0,46% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi lækkað um 0,67%.