Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hefur lækkað um 1,41% það sem af er viðskiptum í dag. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hafa viðskipti með Icelandair Group verið stöðvuð að beiðni Fjármálaeftirlitsins, og virðist sem bréf hafi lækkað í kauphöllinni skarpt eftir það.

Þegar viðskiptin með Icelandair voru stöðvuð hafði gengi bréfanna hækkað um 1,88% í 25 milljón króna viðskiptum, sem nú stendur óhreyft í kauphöllinni. Öll önnur bréf hafa lækkað. Mest lækkun lækkun hefur verið á gengi bréfa Skeljungs, eða fyrir 2,03% í þó ekki nema 44 milljóna viðskiptum. Standa bréf olíufélagsins nú í 7,25 krónum þegar þetta er skrifað.

Mestu viðskiptin hafa hins vegar verið með bréf Marel, eða fyrir 121 milljón en lækkunin þar er 1,73%, niður í 370,00 krónur hvert bréf. Næstmestu viðskiptin voru svo með bréf í Festi, eða fyrir 89 milljónir, en þau hafa lækkað í morgun um 1,67% í 89 milljón króna viðskiptum.