Flughátíð Flugmálafélags Íslands, Allt sem getur flogið, verður haldin á Helluflugvelli um helgina til sunnudags. Allir iðkendur og áhugamenn flugsporta eru velkomnir á hátíðina ásamt fjölskyldum sínum en að sögn Matthíasar Sveinbjörnssonar, formanns Flugmálafélags Íslands, verður nóg um að vera á hátíðinni.

„Við erum að koma saman öll flugsportin,“ segir Matthías. „Fisflug, svifflug, módelflug, vélflug, listflug og í raun allt sem getur komist í loftið og flogið. Í sjálfu sér er engin skipulögð dagskrá sem slík, þ.e. engin sérstök flugsýning, en það er ansi mikið um að vera. Til dæmis erum við með sameiginlegt grill á laugardagskvöldinu en almennt er þetta bara tækifæri fyrir flugáhugamenn að koma saman, tjalda og leika sér og fara í flugferðir með vini og vandamenn.“