Útgerðarfyrirtækið Stálskip í Hafnafirði hefur aldrei verið með eigin landvinnslu. Fyrstu árin sigldu skip fyrirtækisins iðulega með aflann til útlanda en eftir að fiskmarkaðir komust almennilega á fót hér á landi er aflanum landað hérlendis.

Aðspurð um þetta segir Guðrún Lárusdóttir, framkvæmdastjóri Stálskipa, að landvinnsla hefði kallað á frekari yfirbyggingu og þau hjónin hafi ekki haft áhuga á að stækka þannig við sig. Því hefði fylgt meiri umsvif sem þau töldu óþörf.

Þetta segir Guðrún í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Þegar rætt er um þetta kemur upp í hugann nýleg ummæli sjávarútvegsráðherra þar sem hann telur að landa eigi öllum afla og vinna sem minnst um borð í skipunum sjálfum.

Guðrún segist ekki hrifin af þeirri hugmynd. Öllum afla sé landað hérlendis og það sé hagkvæmni fólgin í því að vinna aflann um borð í skipunum eftir því sem unnt er.

„Af hverju ætla menn alltaf að reyna að finna upp hjólið aftur og aftur?“ spyr Guðrún og bætir því við að með áralangri reynslu af fiskveiðum hafi útgerðin alltaf fikrað sig í átt til hagræðis.

„Það kostar peninga að vera alltaf að finna upp hjólið upp á nýtt og allt sem kostar peninga er eitur í mínum beinum. Ég vil bara auka verðmætið. Það á að vinna aflann þar sem best verð fæst fyrir hann.“

En hvernig fara hagsmunir útgerða og almennings best saman í þessum efnum?

„Hagsmunirnir fara vel saman. Ef vel gengur hjá útgerðinni þá hefur það margfeldisáhrif út í þjóðfélagið,“ segir Guðrún.

„Skatttekjurnar aukast og þar að auki skapast atvinna hjá þeim sem þjónusta sjávarútveginn, s.s. við löndun, flutninga, viðgerðir, hátækniþróun eða aðra þjónustu.“

_____________________________

Nánar er rætt við Guðrún í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .