Miðjuflokkurinn En Marche! mun að öllum líkindum vinna stórsigur í frönsku þingkosningunum, en seinni umferð þeirra stendur yfir í dag. Ef að allt gengur eftir fyrir flokk forsetans mun hann vinna stærsta þingmeirihluta sem að unnist hefur síðan eftir seinni heimsstyrjöldina. Það er merkilegt fyrir margar sakir, en sér í lagi þá að flokkurinn var stofnaður fyrir ríflega ári síðan í kringum framboð Emmanuel Macron, sem er nú forseti Frakklands.

Gert er ráð fyrir að En Marche! og Modem, sem er samstarfsflokkur flokks forsetans, hljóti 470 af 577 af þingsætum. Ef að kosningasigurinn verður að veruleika eykur það lögmæti nýja forsetans umtalsvert, því þá er auðveldara fyrir hann að koma hugmyndum sínum í gegnum þingið, og þá getur hann ráðist í hluti sem hafa lengi setið á hakanum í Frakklandi: Til að mynda að gera vinnumarkaðinn sveigjanlegri og breyta lífeyriskerfinu.

Sigurinn mun einnig vera til marks um breytta tíma en margir koma nýir inn á þingið, og þar af er stór hluti kvenna. Kosningaþátttaka er ekki með besta um miðjan daginn var hún um 17,75% eða þremur prósentustigum slakari en árið 2012. Hinir hefðbundnu flokkar bíða nú afhroð í kosningunum. Árið 2012 hlutu Sósíalistar 295 þingsæti, en nú er gert ráð fyrir því að flokkurinn hljóti um 22 til 35. Repúblikanaflokkurinn hlaut 196 atkvæði í árið 2012, en nú er gert ráð fyrir því að flokkurinn fái um 60 til 80 atkvæði.