Fátt virðist koma í veg fyrir að yfirvinnubann í álveri Rio Tinto Alcan í Straumsvík hefjist á miðnætti, en þetta kemur fram í frétt RÚV .

Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, býst við að tafir verði á framleiðslu álversins vegna þessa. Um 400 manns vinna hjá álverinu og er fólkið í mörgum mismunandi stéttarfélögum, en það á þó saman í viðræðum við Rio Tinto Alcan.

Ólafur segir að kjaradeilan snúist um ákvæði sem hefur verið í kjarasamningum frá 1972, sem annar fyrirtækinu að ráða verktaka nema sérstaklega sé samið um undanþágur. Vill fyrirtækið fjölga þessum undanþágum svo hægt sé að bjóða út starfsemi við höfnina, í mötuneyti og þvottahúsi og gæslu við innganginn á svæðið.

Næsti samningafundur er ekki fyrr en á þriðjudag eftir verslunarmannahelgi, en starfsmenn hafa boðað yfirvinnubann á miðnætti. Eftir mánuð mun svo hefjast verkfall ef ekki er samið.

Ólafur Teitur segir að það sé eðlilegt og sanngjarnt að álverið búi við svipuð tækifæri og önnur fyrirtæki á Íslandi sem vilja hagræða rekstri sínum. Segir hann starfsfólk njóta góðra kjara meðan fyrirtækið tapar á rekstrinum.