Frá því var greint í fréttatímum RÚV og Stöðvar 2 í gær að svar Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, til Umboðsmanns Alþingis hafi verið byggt á misskilningi í sakamálarétti. Hanna Birna hélt því fram í bréfinu að Stefán Eiríksson, þáverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hefði ekki farið með yfirstjórn rannsóknar lekamálsins heldur hafi hún verið í höndum ríkissaksóknara.

Heimir Örn Herbertsson, hæstaréttarlögmaður, segist í samtali við VB.is ekki vera sammála þessum fréttaflutningi og segir engan misskilning að finna í bréfi Hönnu Birnu til umboðsmanns. „Í fréttaskýringu Stöðvar 2 um málið segir að sú frásögn ráðherrans um samskipti hennar við lögreglustjórann hafi markast af þeirri staðreynd að hann hafi ekki farið með stjórnun á rannsókninni og það standist ekki með vísan til ákvæða í lögreglulögum. Þessi ákvæði sem bent er á í umfjölluninni endurspegla vissulega hina almennu skipan sem er sú að lögreglustjóri fer með rannsókn mála í sínu umdæmi. Það virðist hins vegar alveg ljóst í þessu tiltekna máli að svo var ekki vegna þess að lögreglustjórinn hefur sjálfur sagt það.“

Byggir á upplýsingum frá lögreglustjóranum sjálfum

Heimir segist ekki fá betur séð en að allt standist skoðun í frásögn Hönnu Birnu sem byggi á upplýsingum frá lögreglustjóranum sjálfum. „Það er nú haft beint eftir honum sjálfum í bréfi frá umboðsmanni að hann hafi í upphafi málsins hugað að hæfi sínu, sem honum er skylt að gera samkvæmt ákvæðum lögreglulaga, og borið það upp við ríkissaksóknara. Niðurstaðan úr þeim samskiptum verður sú, eins og hann lýsir því, að ákveðið hafi verið að ríkissaksóknari myndi fara með hina formlegu ábyrgð og stjórn rannsóknarinnar, en hins vegar myndi embætti lögreglustjórans leggja til lögreglumenn. Það er ekki ráðherrans að finna út úr því á hvaða lagagrundvelli ríkissaksóknari og lögreglustjóri tóku þessa ákvörðun. Hún var tekin og hefur verið lýst af lögreglustjóra svona.“

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari sagði í svari við fyrirspurn fréttastofu RÚV að embættið væri almennt yfir rannsóknum, en hvað lekamálið varðaði hafi lögreglustjóranum verið gefin fyrirmæli um rannsóknina. Framkvæmd rannsóknarinnar hafi síðan verið í höndum lögreglu líkt og lög geri ráð fyrir. Heimir telur þetta ekki skipta máli fyrir Hönnu Birnu. „Ætli það sé ekki best að ríkissaksóknari og lögreglustjóri útskýri af hverju þau tali í kross um þetta. En það sem skiptir mestu máli í þessu er það að lögreglustjórinn upplýsir að þetta fyrirkomulag hafi verið haft á og það er ekki ráðherrans að véfengja það með nokkrum hætti.“

Umboðsmanni ber að gæta meðalhófs

Í bréfi sínu gagnrýndi Hanna Birna umboðsmann fyrir að fjalla um athugun sína fyrir opnum tjöldum án þess að um leið væri gerð grein fyrir hennar sjónarmiðum, og taldi þessa framkvæmd ekki í samræmi við 4. mgr. 12. gr. laga nr. 95/1997 um umboðsmann Alþingis. Í fréttaflutningi Stöðvar 2 var greint frá því að í framkvæmd hefði verið litið svo á að umrætt ákvæði ætti við þegar lagt hefði verið fyrir stjórnvald beiðni um skýringar þegar endanleg niðurstaða umboðsmanns kæmi fram, en orðið „tilkynning“ vísaði til tilkynningar þar sem endanleg niðurstaða birtist.

Heimir fær hins vegar ekki betur séð en að sú hugsun sem birtist í greinargerð með lögunum, þar sem fjallað er um að stjórnvaldi varði það miklu að allt það sem það hafi fært fram sér til varnar komi fram í tilkynningum umboðsmanns, endurspegli það sem ráðherra benti á í bréfi sínu. Það sé mikill ábyrgðarhluti umboðsmanns að senda frá sér jafnharðan bréf, tilkynningar og annað efni og hann verði að huga að meðalhófssjónarmiðum í því sambandi. Það eitt að hann geri það án þess að að gefa þeim sem sé til athugunar tækifæri til að bregðast við samtímis sé til þess fallið að hafa áhrif á skoðanir almennings og geri ráðherranum erfiðara fyrir að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. „Ég fæ ekki séð að nein þörf hafi verið fyrir að umboðsmaður geri þetta eins og hann gerði eða að einhverjar knýjandi ástæður hafi staðið til þess.“