Allt er á suðupunkti í Félagi kvenna í lögmennsku og hefur hluti stjórnarinnar sagt sig úr stjórninni. Þetta kemur fram á vef lögmannafélagsins. Ólguna má líklegast rekja til tilkynningar FKL, þar sem lýst var yfir óánægju með tillögu til breytinga á lögmannalögum sem samþykkt voru á félagsfundi Lögmannafélagsins fyrr í mánuðinum.

Fyrir stuttu sendi Félag kvenna í lögmennsku Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra, bréf þar sem óskað var eftir því að ráðherra myndi endurskoða breytingatillögur Lögmannafélagsins á lögmannalögum. FKL taldi tillögurnar gera lögmönnum erfiðara fyrir en áður að öðlast réttindi á efra dómstigi.

Markmið breytinganna er hins vegar að gera lögmönnum, sem stunda málflutning, auðveldara að afla sér réttinda á æðra dómstigi. Hingað til hefur 5 ára starfsreynsla sem héraðsdómslögmaður og flutningur 30 mála dugað til réttinda hæstaréttarlögmanns. Þar af hafa tíu þurft að vera einkamál fyrir héraðsdómi og fjögur prófmál fyrir Hæstarétti.

Kristrún Elsa Harðardóttir, formaður FKL, sagði þó í samtali við RÚV að breytingarnar myndu lengja ferlið og gera lögmönnum erfiðara fyrir að öðlast réttindi á æðra stigi. Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélags Íslands, taldi formanninn og félagið þó vera á miklum villigötum. Að hans mati endurspeglar gagnrýni FKL misskilning og þekkingarleysi á því hvað þarf í dag til þess að verða hæstaréttarlögmaður.

Hópurinn sem hefur sagt sig úr stjórn FKL telur að ekki hafi verið fylgt starfsreglum stjórnar við stefnumótun í mikilvægum málefnum í nafni FKL. Þetta eru þær Andrea Olsen, Gróa Björg Baldvinsdóttir, Helga Björk Valberg og Hildur Georgsdóttir.

Með tilkynningu þeirra um úrsögn úr stjórninni, hvetja þær eftirsitjandi stjórnarmeðlimi til að boða til aukafélagsfundar FKL, svo að kosning nýrrar stjórnar geti farið fram.