Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Björns Inga Hrafnssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra og stjórnarformanns Pressunar, segir kæruna um fjárdrátt tilhæfulausa og að allt tal um fjárdrátt sé fjarri sanni. Viðskiptablaðið fjallaði um það nú fyrir skemmstu að ný stjórn Pressunnar hefði ákveðið að kæra Björn Inga til lögreglu fyrir fjárdrátt.

Í bréfi Sveins Andra segir að endurgreiðslum á lánum sem Björn Ingi veitti Pressunni ásamt launagreiðslum og greiðslum fyrir þáttagerð hjá Stöð 2 skýra millifærslur til hins síðarnefnda. Þá segir að embætti Héraðssaksóknara verði vitaskuld gerð grein fyrir staðreyndum málsins og lögð fram gögn sem sýna að löglega var staðið að ákvörðunum sem nú á að gera tortryggilegar og að stjórnendur Pressunnar höfðu fullt umboð til að taka þær.

Hér að neðan má lesa yfirlýsinguna í heild sinni:

Fréttablaðið segir í dag frá kæru á hendur fv stjórnendum Pressunnar sem ný stjórn félagsins hefur sent Héraðssaksóknara.

Vegna þessa er mikilvægt að upplýsa, að ný stjórn hefur ekki gert nokkra tilraun til að kynna sér þau atriði sem kært er fyrir eða afla sér gagna eða upplýsinga hjá fyrrverandi fyrirsvarsmönnum. Er tilgangurinn greinilega sá að þyrla upp moldviðri í fjölmiðlum og koma þannig höggi á umbjóðendur mína. Slíkt atferli er mjög alvarlegt og verður ekki látið óátalið.

Embætti Héraðssaksóknara verður vitaskuld gerð grein fyrir staðreyndum málsins og lögð fram gögn sem sýna að löglega var staðið að ákvörðunum sem nú á að gera tortryggilegar og að stjórnendur Pressunnar höfðu fullt umboð til að taka þær.

Þá verður einnig upplýst um lánveitingar frá Birni Inga Hrafnssyni til Pressunnar á undanförnum árum sem hafa verið endurgreiddar að hluta og skýra ásamt launagreiðslum og greiðslum fyrir þáttagerð hjá Stöð 2 þær millifærslur sem tilgreindar eru í áðurnefndri kæru og eiga sér eðlilegar skýringar. Allt tal um fjárdrátt eru fjarri sanni og sett fram gegn betri vitund.

Umbjóðendur mínir vekja athygli á því að Fjárfestingafélagið Dalurinn sem skipaði nýja stjórn Pressunnar, hefur að undanförnu samið um auglýsingainneignir hjá miðlum Pressunnar og DV fyrir milljónatugi en vill nú á sama tíma meina að slík viðskipti af hálfu annarra hluthafa Pressunnar séu refsiverð. Einnig benda þeir á að fáeinar vikur eru síðan Dalurinn falbauð hlutabréf sín í Pressunni og vildi fá auglýsingainneign í staðinn upp á nokkra tugi milljóna til viðbótar sem endurgjald. Þykja þessi viðskipti góð og gild þegar kærendur eiga í hlut en refsiverð í tilviki umbjóðenda minna.

Þá sætir alveg sérstakri furðu að Dalurinn geri ógreidd opinber gjöld að umtalsefni, því Árni Harðarson, forsvarsmaður Dalsins og aðstoðarforstjóri Alvogen, kom að því að semja um þær skuldir við Tollstjóra og gaf embættinu meðal annars skriflega yfirlýsingu um að öll vanskil félagsins yrðu þurrkuð upp.

Staðreyndin er sú að fv stjórnendur Pressunnar náðu frábærum árangri er þeir seldu nokkra af helstu fjölmiðlum fyrirtæksins til Frjálsrar fjölmiðlunar í september sl. Var fyrir vikið hægt að greiða mjög mikið niður af skuldum Pressunnar og DV. En með þessu virðast þeir hafa bakað sér óvild forsvarsmanna Dalsins sem mínir umbjóðendur telja að hafi ætlað sér að hirða útgáfutitlana fyrir eða eftir þrot og setja í nýtt félag. Slík niðurstaða hefði komið sér afar illa fyrir starfsfólk fjölmiðlanna og kröfuhafa. Svo og ríkissjóð.

Upp frá því hafa nýir stjórnendur Pressunnar ehf og eigendur (Dalurinn ehf) verið í mikilli herferð sem gengur út á að koma höggi á fyrrum stjórnendur Pressunnar og koma fyrirtækjunum í þrot. Hafa menn þannig gengið á milli fjölmiðla með afrit af kærunni til Héraðssaksóknara á sama tíma og ekki virðist mega kynna hana fyrir hinum kærðu. Virðast einhvern almannatengsl hafa orðið ofan á, á kostnað hefðbundinnar lögmennsku,

Það er ljótur leikur að skjóta fyrst og spyrja svo. Að setja fram ásakanir um lögbrot án nokkurra sannana og án þess að kynna sér málavexti eða sækjast eftir skýringum er mikið ábyrgðarleysi og getur haft miklar afleiðingar. Umbjóðendur mínir áskilja sér allan rétt í framhaldinu því sannleikurinn kemur alltaf fram að lokum.