Öll tæki og tól Vesturmjólkur í Borgarnesi eru nú til sölu en þau voru auglýst í Morgunblaðinu um síðustu helgi. Um er að ræða flest það sem tengist mjólkurgerð og afurðum úr henni, tankbíl, pökkunarvél og margt fleira.

Fyrirtækið var sett á laggirnar árið 2010 og setti um mitt síðasta ár fyrstu vörurnar á markað undir vöruheitinu Baula - beint úr sveitinni. Það framleiddi m.a. drykkjarvörur úr mjólk, jógúrt og sýrðan rjóma. Stofnendur Vesturmjólkur voru þrír, Jóhannes Kristinsson, sem átti Fons ásamt Pálma Haraldssyni, og kúabændurnir Bjarni Bæring Bjarnason og Axel Oddsson.

Einn skráður eigandi Vesturmjólkur var félagið Norðurárdalur sem tengist Þverholtum á Mýrum í Borgarfirði en þar er rekið eitt stærsta kúabú landsins.

Í febrúar síðastliðnum greindi fréttavefurinn Skessuhorn frá því að fyrirtækið hafi ekki framleitt neitt síðan seint í janúar og að fjórum starfsmönnum hafi verið sagt upp. Hlé var gerður á rekstrinum í sama mánuði. Gylfi Árnason, framkvæmdastjóri Vesturmjólkur, sagði í samtali við Skessuhorn, ekki vanta á framboð á mjólk en að 40 til 50 milljónir króna hafi vantað til að halda rekstrinum áfram.

Hér má sjá allt það sem er til sölu af tækjakosti Vesturmjólkur. Myndin sem hér fylgir er að finna á listanum yfir þau tæki og tól sem Vesturmjólk er að selja.