Líkt og fjallað var um í gær markaði nýlegt skuldabréfaútboð Haga ákveðinn áfanga fyrir markað með fyrirtækjaskuldabréf í Kauphöllinni en bréfin voru þau fyrstu sem skráð rekstrarfélag á markaði gefur út frá hruni.  Jón Þór Sigurvinsson, forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Arctica Finance segir að búast megi við því að fleiri skráð og óskráð félög muni fara í skuldabréfaútgáfu á næstu misserum en Arctica hafði umsjón með skuldabréfaútboði Haga.

„Það er búin að vera okkar skoðun lengi að markaðurinn muni þróast í þessa átt og mér finnst líklegt að við munum sjá fleiri svona útgáfur. „Fasteignafélögin hafa nú þegar verið með beina markaðsfjármögnun og komin rík hefð fyrir útgáfu þeirra. Núna kemur eitt stærsta rekstarfélag landsins inn á markaðinn og mér finnst mjög líklegt að fleiri fari þessa leið, bæði skráð og óskráð félög.“

Sjá einnig: Snúningspunktur fyrir markaðinn

Eins og fjallað var um í gær hafa skuldabréfaútgáfur nær eingöngu verið sértryggð bréf fjármálafyrirtækja og svo fasteignaveðtryggð bréf sem einnig á við í dæmi Haga. Jón Þór segir þó að búast megi við að félög muni líta til fleiri möguleika eins og að gefa út óveðtryggð skuldabréf sem innihalda rekstrarskilyrði. „Í framhaldinu finnst okkur líklegt að við förum líka að sjá óveðtryggð bréf með sterkum fjárhagslegum skilyrðum, t.d. um eiginfjárhlutföll, vaxtaþekjur, skuldahlutföll og jafnvel veðsetningartakmörk eða veðsetningarbönn. Þá fær fjárfestirinn vernd með því að setja skorður á félagið en ekki með því að taka bein veð. Það þarf einfaldlega að skoða hverju sinni hvers konar fyrirkomulag hentar viðkomandi fyrirtæki.  Í tilfelli Haga var það mat félagsins og ráðgjafa þess að veðtryggt bréf myndi skila félaginu lægstum vöxtum.“

Spurður hvort breytt staða á fjármálamarkaði meðal annars hvað varðar lægri vexti og minni útlánagetu bankanna hafi haft áhrif á aukinn áhuga félaga á markaðsfjármögnun segir Jón Þór að svo sé. „Upp á síðkastið hefur umhverfið breyst. Vextir Seðlabankans hafa lækkað en bankarnir hafa ekki getað fylgt lækkuninni vegna einmitt þeirra ástæðna sem þú nefndir áðan. Hvati félaga til þess að sækja lægri vexti í gegnum markaðsfjármögnun hefur því aukist umtalsvert.“

Allt til staðar á markaðnum

Að sögn Jóns Þórs felst ábatinn við markaðsfjármögnun að miklu leyti í bestun á fjármagnsskipan þeirra. „Þegar félag er komið í ákveðna stærð þá hefur það betri möguleika á því að besta fjármagnsskipan í gegnum markaðsfjármögnun. Þrátt fyrir lægri vexti þá fylgir markaðsfjármögnun oft minni sveigjanleiki en banki getur boðið upp á.

Í tilfelli Haga náðist til dæmis ákveðin bestun á fjármagnsskipan með því að gefa út veðtryggð skuldabréf ásamt því að semja við banka um fjármögnun á veltufjármunum samstæðunnar og fasteignum í eigu Olís. Í framtíðinni mætti líka sjá fyrir sér enn einfaldara tryggingarfyrirkomulag þar sem einn og sami „tryggingarpúðinn“ með öllum veðum viðkomandi félags stæði að veði gagnvart markaðsfjármögnun og bankafjármögnun samhliða.

Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir miklu máli að finna gott jafnvægi á milli þess að kaupendur skuldabréfanna séu vel varðir án þess þó að tryggingarfyrirkomulagið eða fjárhagslegu skilyrðin bindi hendur félagsins of mikið. Spurður hvort eitthvað þurfi að breytast svo markaður með fyrirtækjaskuldabréf geti myndast af alvöru hér á landi segir Jón Þór að svo sé ekki. „Það er allt til staðar og ekkert því til fyrirstöðu að markaður með fyrirtækjaskuldabréf stækki. Þessi þróun er farin af stað og hún mun halda áfram.“

Fundið fyrir auknum áhuga

Spurður hvort áhugi annarra félaga á markaðsfjármögnun hafi aukist eftir að útboði Haga lauk segir Jón Þór að svo sé. „Bæði hefur áhuginn aukist frá upprunalegu tilkynningunni og svo vitum við að margir biðu eftir því hvernig útboðið myndi ganga. Farsælt útboð var því mikilvægt, bæði fyrir framtíðar útgefendur og kaupendur að skuldabréfum,“ segir Jón Þór sem telur einnig líklegt að óskráð stærri félög muni horfa í frekara mæli til markaðsfjármögnunar.

„Upplýsingaskyldan sem fyrirtæki þarf að uppfylla við skráningu skuldabréfa er í rauninni hlutmengi í upplýsingaskyldu skráðs félags. Þess vegna er útgáfa mjög auðveld fyrir skráð félög upp á upplýsingaskyldu að gera. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að fyrirtæki sem ekki eru skráð á hlutabréfamarkað gefi út skuldabréf. Sömu hvatar um lækkun á fjármagnskostnaði í gegnum markaðsfjármögnun eiga við í tilfelli skráðra og óskráðra fyrirtækja. Við teljum því líklegt að fleiri fyrirtæki, skráð jafnt sem óskráð, muni nýta sér þennan kost á næstunni.“