Allt frá fyrstu kappræðum þeirra Barack Obama og Mitt Romney virðast forsetakosningarnar í Bandaríkjunum hafa tekið ákveðnum stakkaskiptum. Nýjar skoðanakannanir sýna að Romney hefur sótt mjög á og þrátt fyrir að enn líti út fyrir að Obama muni bera sigur úr býtum er kapplaupið mun tæpara en það var fyrir örfáum vikum.

Það er því til mikils að vinna fyrir þá báða í öðrum kappræðunum, sem fram fara í kvöld. Obama þótti hafa staðið sig með afbrigðum illa í fyrstu kappræðunum og báru skoðanakannanir meðal kjósenda þess merki. Mikill meirihluti þeirra taldi Romney hafa sigrað í kappræðunum.

Margir stuðningsmenn Obama töldu að hann hafi tekið á Romney með silkihönskum í stað þess að beita á hann vopnum eins og ummælum Romney um þau 47% Bandaríkjamanna sem fá meira frá alríkinu en þeir greiða í tekjuskatta til þess. Má því búast við því að Obama taki harðar á andstæðingnum í þetta skiptið.

Mjög ólíklegt er að Romney nái viðlíka árangri í kvöld og í fyrra skiptið, en aftur á móti má segja að hann þurfi ekki á slíkum sigri að halda. Hann þarf að sjálfsögðu að standa sig betur en forsetinn, en vegna þess að flestir búast við betri frammistöðu frá Obama í kvöld en áður þá þarf Romney í raun aðeins að halda í horfinu. Obama þarf að sækja fram, en Romney gæti nægt að hanga í vörn, ef nota má knattspyrnumyndmál.

Það sem gerir kappræðurnar í kvöld sérstakar er að þetta eru svokallaðar „Town-Hall“ kappræður, þar sem gestir í sal spyrja frambjóðendurna spurninga í gegnum stjórnanda kappræðnanna. Lengi vel þóttu repúblikanar standa sig verr í slíkum kappræðum en demókratar. Í slíkum kappræðunum milli George H. W. Bush, Bill Clinton og Ross Perot urðu Bush á þau mistök að líta á armbandsúr sitt þegar gestur spurði spurningar um efnahagslega erfiðleika almennings. Þótti það gefa til kynna áhugaleysi hans á spyrjandanum og spurningunni.

Mikilvægt atriði í þessari tegund kappræðna er að frambjóðandinn sýni samkennd með og áhuga á fólkinu í salnum. Romney, sem hingað til hefur verið talinn frekar tilfinningalega kaldur, gæti átt í erfiðleikum þar. Á móti kemur að þessar aðstæður gætu gert Obama erfiðara fyrir með að ráðast á andstæðinginn. Ef þær eru of harðar gæti samúð áhorfenda og gesta í salnum snúist með Romney.

George H. W. Bush í kappræðunum árið 1992.
George H. W. Bush í kappræðunum árið 1992.

George H. W. Bush lítur á armbandsúrið í kappræðum við Bill Clinton og Ross Perot árið 1992.