Bræðurnir Ormsson opnuðu í dag nýja stórverslun í Smáralind undir nafninu Ormsson. Um 1.200 fermetra verslunarpláss er að ræða, en HTH innréttingar verður einnig að finna í verslunarplássinu frá og með marsmánuði á næsta ári. Pálmi Kristinsson, framkvæmdastjóri Smáralindar, segir í Viðskiptablaðinu í dag að þar með sé allt verslunarpláss Smáralindar komið í útleigu fyrir utan tvö minni rými sem búið er að ráðstafa, "Við eigum ekkert til útleigu," segir hann en Pálmi viðurkennir að hafa lengi unnið að því að leigja plássið sem Ormsson fékk, en það er á 1. hæð undir verslun Útilífs og hefur verið laust frá því Smáralind opnaði.

Pálmi segir að yfir 90 skráðar fyrirspurnir hafi borist Smáralind um leigupláss í húsinu á árinu, og lætur nærri að þær samsvari eftirspurn eftir 13-15 þúsund fermetra verslunarplássi. Flestar hafa fyrirspurnirnar borist á seinni hluta ársins. "Það eru fjölmargir sem sitja um hvert rými sem losnar og eftirspurnin er gífurlega mikil." Pálmi segir greinilegt að kaupmenn geri ráð fyrir því að framundan sé veltuaukning í smásöluverslun, enda hafi sú þensla sem hafi komið fram á fasteignamarkaði, fjármálamarkaði og víðar ekki enn náð inn í smásöluverslunina á landsvísu.

Verslun hefur gengið vel í Smáralind það sem af er ári að sögn Pálma, veltuaukning hafi verið tæp 17% það sem af er árinu og rúmlega 20% í október. Gestafjöldi á árinu er orðinn ríflega 14% meiri en í fyrra og tekjur af veitingasölu í húsinu hafa aukist verulega, eða um 50% á árinu. Í október jókst velta af veitingasölu um 60% milli ára. Áður en árið er liðið mun síðan enn bætast í flóru veitingastaða í Smáralind, en þar mun opna asíski veitingastaðurinn Asian Express þar sem fólk mun geta notið vinsælustu réttanna sem lönd Asíu hafa upp á að bjóða. Meðal nýrra verslana sem bæst hafa í Smáralindina nýlega má nefna Te og Kaffi, Jóa Fel og Polo Ralph Lauren og á næstunni opnar Blómaval nýja verslun.