Fólk sem vinnur í nýsköpunargeira landsins virðist almennt jákvætt um áhrif losun fjármagnshafta. Aukin tækifæri verða til fjárfestingar hjá sprotafyrirtækjum. Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, segir losun hafta leggjast mjög vel í sig. „Þetta tekur ákveðna pólitíska áhættu í burtu gagnvart erlendum fjárfestum,“ segir Helga. Hún segir að afnám hafta muni hjálpa mjög mikið við að fá inn erlenda fjárfesta og auki einnig sveigjanleikann í starfsemi íslenskra nýsköpunarfyrirtækja.

„Starfsemin verður fljótlegri og þægilegri. Við sjáum fyrir okkur að nú verði tækifæri að fá erlenda fjárfesta jafnvel inn í sjóði en við þurfum að vinna það betur,“ segir Helga. Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Klak Innovit, tekur undir með Helgu að fyrstu viðbrögðin við losun hafta séu klárlega mjög jákvæð, þó að sé auðvitað ennþá mjög mikil óvissa fólgin í áætluninni. Hún telur að afnám hafta muni að öllum líkindum hafa mikil áhrif á nýsköpunarumhverfið í heild sinni. „Það einfaldar sprotafyrirtækjum lífið. Flestir stefna auð- vitað á vöxt á alþjóðamarkaði.“ Hún segir að fyrir lítil fyrirtæki hafi farið mikill tími í að sækja um undanþágu frá höftunum og hafi einnig getað verið gríðarlega kostnaðarsamt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .