Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, fagnar mjög skýrslu Kviku og Pöyry um raforkusæstreng milli Íslands og Bretlands. Hann segir hana ítarlega og standast mjög alþjóðlegan samanburð.

Hörður segir að útflutningslíkanið sem mest er fjallað um í skýrslunni sé það líkan sem Landsvirkjun hafi horft mest til í sinni vinnu. „Við höfum skoðað önnur líkön, en við fyrstu frumathugun þá virðist okkur að það gæti verið áhugaverðast,“ segir hann.

Ein af niðurstöðum skýrslunnar er að rekstur sæstrengsins krefjist styrkveitingar frá Bretum og segir Hörður að það komi ekki á óvart. Það hafi í raun verið eitt af markmiðum í viðræðum Íslendinga og Breta að kanna hvort Bretar séu tilbúnir að styrkja sæstrenginn með sama hætti og þeir styðja verkefni um hreina orku í Bretlandi.

„Niðurstaðan er að þeir séu tilbúnir að gera það, sem er náttúrulega mjög jákvætt. Þetta var eiginlega meginspurningin, og það var alltaf litið á sem forsendu fyrir að verkefnið yrði gert að Bretar tækju fjárhagslegu áhættuna,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .