*

mánudagur, 22. júlí 2019
Innlent 12. október 2012 15:25

Alltaf gert ráð fyrir að innstæður þrotabúa færu út

Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri segir útgreiðslur úr þrotabúum engu breyta um skuldastöðu þjóðarinnar.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri.
Haraldur Guðjónsson

Útgreiðslur úr þrotabúum föllnu viðskiptabankanna breyta engu um undirliggjandi skuldastöðu þjóðarbúsins, að sögn Arnórs Sighvatssonar aðstoðarseðlabankastjóra. Hann segir alltaf hafa verið gert ráð fyrir því í áætlunum Seðlabankans að innstæður úr þrotabúunum yrðu teknar út. 

Greiningardeild Arion banka sagði í Markaðspunktum sínum í dag 300 milljarða króna útgreiðslu innstæðna úr Seðlabankanum auka skuldastöðu þjóðarbúsins án fjármálafyrirtækja í slitameðferð sem því nemur. Þessi þróun geri krónunni erfitt uppdráttar og allar áætlanir um afnám gjaldeyrishafta ótrúverðugar.

Í ritinu „Hvað skuldar þjóðin?“ sem Seðlabankinn gaf út í febrúar í fyrra kom fram að erlendar skuldir þjóðarinnar nemi 65% af vergri landsframleiðslu. Greiningardeildin telur hreina skuldastöðu þjóðarinnar við útlönd hins vegar nema 123% af vergri landsframleiðslu eftir útgreiðsluna. Mismuninn segir greiningardeild Arion banka skýrast af því að Seðlabankinn hafi fært innstæðuna sem erlenda eign en ekki sem skuld.