Eftir að Anna útskrifast sem hagfræðingur frá Háskóla Íslands hélt hún vestur um haf í nám árið 2003 og lauk þar tveimur meistaragráðum, annars vegar í hagfræði frá UCLA árið 2005 og hins vegar í fjármálastærðfræði frá University of Southern California ári síðar. Í kjölfarið var hún ráðin sem miðlari (e. trader) hjá Madison Tyler Trading, forvera Virtu Financial, sem er eitt fremsta fyrirtæki heims á sviði rafrænna viðskipta og var skráð á markað fyrir rúmu ári.

Snemma árs 2008 stofnaði hún sitt eigið hátíðniviðskiptafyrirtæki, World Financial Desk (WFD), ásamt nokkrum öðrum einstaklingum, en hún segist hafa séð mikil tækifæri í þessum geira. Þar starfaði Anna Þorbjörg þar til fyrirtækið var selt árið 2015.

„Fyrirtækið lifir ennþá, það var keypt af stóru fjárfestingarfyrirtæki í Los Angeles og er áfram rekið undir þeirra hatti. Ég starfaði sem fjárfestingarstjóri hjá WFD frá stofnun og var annar stjórnarformanna,“ segir Anna Þorbjörg.

WFD fór frá því að vera lítið fyrirtæki með sjö starfsmönnum yfir í að vera oft einn af tíu stærstu aðilum á rafrænum mörkuðum fyrir bandarísk ríkisskuldabréf og stór aðili á vaxtaafleiðumörkuðum í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi og Ástralíu.

Ítarlegt viðtal við Önnu Þorbjörgu er í Áhrifakonum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .