Bræðurnir Vífill og Ýmir Eiríkssynir opnuðu nýverið lífrænan hamborgarastað á Vesturgötu 12. Staðurinn ber nafnið Bio Borgari, en undanfarnar vikur hefur staðið yfir söfnun á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund. Þar hafa alls 5.975 evrur safnast þegar þetta er ritað eða tæplega 700 þúsund krónur.

Vífill Eiríksson segir að bræð- urnir hafi unnið að þessari hugmynd í sameiningu. „Við bræðurnir vorum á þannig stað í lífinu að við þurftum að ákveða hvað við ætluðum að taka okkur næst fyrir hendur. Fyrir tveimur árum síðan þá vaknaði þessi hugmynd og þá fórum við af stað með „popup“ bás sumarið 2015. Það var í raun bara alveg sama hugmynd. Þegar við byrjuðum var markmiðið alltaf að koma sér inn á stað. Helsta vandamálið var að finna stað sem virkaði. Við erum bara tveir í þessu, svo það er ekki mikið sem stendur á bak við þetta.“ Vífill er með BA í arkitektúr og Ýmir er kokkur, svo það hentar vel ef opna á hamborgarastað.

Sterk tenging

Bræðurnir ólust upp í mikilli tengingu við lífrænt mataræði að sögn Vífils. „Foreldrar okkar eru báðir kennarar í Waldorfskólanum í Lækjarbotnum, við höfum búið þar upp frá og svo erlendis. Ég er til dæmis fæddur í Svíþjóð í bænum Järna. Það er ekki beint hefðbundinn sænskur smábær, þar eru til að mynda nokkrir Waldorfskólar og margir lífrænir bændur. Við fáum hveitið okkar þaðan. Þetta er bara sterk tenging. Við höfum alltaf hugsað lífrænt,“ segir Vífill.

Hann bætir við að það hafi ekkert annað komið til greina en að hafa hráefnið lífrænt. Hann segir að þá viti maður hvað maður hefur í höndunum. „Hugsunin á bak við þetta er að halda jafnvægi í náttúrunni,“ tekur Vífill fram. Bræðurnir fá lífrænt grænmeti frá íslenskum ræktendum og kjötið frá þeim fáu lífrænu kúabú- um sem eru á Íslandi. „Við erum í góðum samskiptum við bændurna, þetta er kannski ekki hinn dæmigerði skyndibitastaður, við leggjum mikið upp úr hráefninu, bökum brauðið og gerum sósur og pestó frá grunni,“ bætir Vífill við.

Spurning um að finna réttu staðsetninguna

Vífill segir að það hafi verið erfitt að finna réttu staðsetninguna en eftir langa og stranga leit hafi þeir ákveðið að opna staðinn á Vesturgötu 12. „Þetta er alveg í jaðrinum á miðbænum. Við erum ekki alveg í mesta ferðamannastraumnum og þá náum við að tala við hverfin líka. Það hefur tekið langan tíma að finna stað vegna þess að við viljum tengjast hverfunum. Við vorum mikið að skoða minni rými við Grettisgötu og Njálsgötu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .