Iceland Soccer Travel er fyrirtæki sem sérhæfir sig í skipulagningu íþrótta- og upplifunarferða. Fyrirtækið býður upp á slíkar ferðir fyrir bandarísk knattspyrnulið hingað til Íslands, sem og ferðir til Bandaríkjanna fyrir íslensk knattspyrnulið. Fyrirtækið var stofnað af þeim Brynjari Benediktssyni og Jónu Kristínu Hauksdóttur, en að sögn Brynjars á fyrirtækið rætur sínar að rekja til annars fyrirtækis sem þau stofnuðu einnig í sameiningu.

„Árið 2015 stofnuðum við annað fyrirtæki sem heitir Soccer and Education USA, en það fyrirtæki aðstoðar íþróttamenn við að komast út til Bandaríkjanna í háskóla á íþróttastyrk. Við höfum aðstoðað tæplega 200 leikmenn að fá íþróttastyrk í Bandaríkjunum. Andvirði styrkjanna er samtals um það bil fjórir milljarðar króna. Íþróttamennirnir sem við höfum aðstoðað eru mestmegnis knattspyrnuleikmenn, en undanfarið höfum við einnig aðstoðað golfara og körfuboltaleikmenn við að komast út á styrk. Helena Sverrisdóttir körfuboltakona og Ólafur Björn Loftsson kylfingur hafa verið að aðstoða okkur við þessar íþróttir - enda eru þau sérfræðingar á sínu sviði," segir hann.

Í gegnum þessa starfsemi hafi þau svo myndað sterk tengsl við yfir þúsund háskóla úti í Bandaríkjunum.

„Við erum nánast í daglegum samskiptum við þjálfara liðanna og erum í sambandi við alla þessa stærstu skóla, eins og til dæmis Harvard og Yale. Því hafa myndast mikil tengsl og traust milli okkar og þjálfarana. Þeir hafa sýnt því mikinn áhuga að koma með liðin sín til Íslands í æfinga- og upplifunarferð. Við ákváðum því að svara þessari eftirspurn og gerum þeim kleift að koma með liðin sín hingað til Íslands, þar sem þau geta spilað leiki á móti íslenskum liðum, æft og skoðað helstu kennileiti landsins í leiðinni. Þetta snýst því ekki aðeins um æfingarnar, heldur líka það að skoða Ísland. Markmiðið er því að liðin sem koma hingað fái innsýn inn í íslenskan fótbolta, auk þess að njóta íslenskrar náttúru og annars sem landið hefur upp á að bjóða," segir Brynjar og bætir við:

„Ég og Jóna erum bæði fyrrum knattspyrnumenn og erum því vel tengd íþróttinni og aðstoðum liðin við að skipuleggja æfingaleiki við íslensk lið. Það er skemmtilegt fyrir bandarísku liðin að spila við íslensk lið og ekki síður fyrir íslensku liðin að spila við ný lið - í stað þess að spila alltaf við sömu innlendu liðin."

FH og KR í æfingaferðir til Bandaríkjanna

Eins og áður hefur komið fram aðstoðar Iceland Soccer Travel einnig íslensk lið við að fara í æfingaferðir til Bandaríkjanna.

„Þar erum við í samstarfi við IMG, sem er íþróttaframhaldsskóli sem er staðsettur í Florida, og bjóðum upp á aðgang að heimsklassa æfingaaðstöðu þeirra. Nú nýlega aðstoðuðum við meistaraflokka karla í knattspyrnu hjá FH og KR að fara í æfingaferðir þangað. Bæði lið voru mjög ánægð með ferðirnar og stefna á að fara aftur þangað á næsta ári. Æfingaaðstaðan er í grennd við borgina Tampa og því hafa liðin möguleika á að skreppa þangað til að gera eitthvað skemmtilegt," segir Brynjar.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Hugbúnaðarfyrirtæki stendur í stappi við stóran bílaframleiðanda.
  • Rekstur knattspyrnuliða hér á landi er krufinn.
  • Farið er yfir stöðu kjaraviðræðna á opinbera markaðnum.
  • Ítarlegt viðtal við viðskiptafræðing ársins.
  • Einn þekktasti ræðumaður heims er fjárfestir á bakvið fyrirtæki sem hefur opnað á Íslandi.
  • Nýr markaðs- og samskiptastjóri Eimskips er tekin tali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað.
  • Óðinn skrifar um útgjöld sveitarfélaga.