Jafn og þéttur vöxtur hefur orðið á markaði fyrir jólaskreytingaþjónustu á seinustu árum. Þetta segir Brynjar Kjærnested, eigandi og framkvæmdastjóri Garðlistar.Nú er svo komið að mörg fyrirtæki og bæjarfélög láta sérhæfð fyrirtæki alfarið um að skreyta fyrir sig um jólin, en það eru stærstu viðskiptavinir þessara fyrirtækja. Þó séu nokkrir einstaklingar sem séu með mjög stórar skreytingar.

Um 15 manns vinna í jólaskreytingum á vegum Garðlistar og um 25 manns þegar mest lætur í desember. Starfsemin veltir tugum milljóna árlega og þó að hún sé árstíðabundin eins og gefur að skilja stendur undirbúningur yfir allt árið. „Nú er þetta orðið mjög stór hluti af okkar rekstri," segir Brynjar.

Undirbúa skreytingar frá því í janúar

Brynjar segir að fyrirtækið hafi byrjað að þreifa fyrir sér í jólaskreytingum árið 2006 og bætti þeirri þjónustu við ýmsa garðaþjónustu sem var fyrir á boðstólum Garðlistar.„Það sem kom okkur á óvart við þennan bransa var að þrátt fyrir að kreppan hafi skollið á héldu jólin áfram. Maður átti von á að þetta yrði eitthvað sem myndi dala mikið en sú varð ekki raunin heldur hefur þetta bara vaxið jafnt og þétt."

Nánar er fjallað um málið í Jólagjafahandbókinni, sérblaði um jólin sem fylgdi síðasta Viðskiptablaði. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .