Það skiptir höfuðmáli að undirbúa viðburði með góðum fyrirvara og skipuleggja þá vel, ekki daginn fyrir partí. „Fólk klikkar oft á því,“ segir Davíð Lúther Sigurðarson hjá viðburðafyrirtækinu Silent. Davíð og Silent hafa í gegnum tíðina komið að fjölmörgum viðburðum, svo sem páskagleðinni í listasafninu í Hafnarhúsi í Reykjavík í fyrra. Fyrirtækið sérhæfir sig í svokölluðum skæruliðauppákomum (e gorilla marketing) sem hafa verið að ryðja sér til rúms í gegnum tíðina og vakið mikla athygli. Hvað stærri viðburði fyrir fyrirtæki snertir segir Davíð skipulag skipta miklu máli.

„Það getur margt komið upp á í kringum viðburði. Meginreglan er sú að leita tilboða í þá. Ef leigja á t.d. rými í Hörpunni eða Háskólabíói þá eru ótal atriði sem þarf að hafa í huga og gætu gleymst. Við mistök sem þessi getur kostnaðurinn við viðburðinn rokið upp um tugi þúsunda,“ segir Davíð og nefnir ýmsa smáhluti sem geti vantað á borð við hljóðnema, skilti í anddyrið þar sem viðburðurinn er haldinn eða bæklingar sem hafi gleymst að prenta.

En krosstré geta brugðist sem önnur tré. Í samræmi við það segir Davíð að þótt allt sé svo að segja geirneglt og öll plön á áætlun þá sé mikilvægt að hafa aukaáætlun til vara. „Það verður alltaf að hafa plan B.“