*

laugardagur, 14. desember 2019
Fólk 28. júlí 2019 19:01

Alltaf verið mikið nörd

Ólafur Örn Nielsen, hefur stofnað fyrirtækið Mantra ráðgjöf og mun hefja störf þar í haust.

Magdalena A. Torfadóttir
Ólafur Örn Nielsen stofnaði nýverið ráðgjafarfyrirtækið Mantra ráðgjöf.
Eva Björk Ægisdóttir

Ólafur Örn Nielsen, hefur stofnað fyrirtækið Mantra ráðgjöf og mun hefja störf þar í haust. Hann vann áður sem framkvæmdastjóri hjá ráðgjafarfyrirtækinu Kolibri.

„Þessi fimm ár sem ég var hjá Kolibri var æðislegur tími en það var kominn tími á breytingar,“ segir Ólafur og bætir við að hann vilji vera nær verkefnunum sjálfum.

„Mantra ráðgjöf snýst um að hjálpa fyrirtækjum sem eru að hefja sína stafrænu vegferð. Ég hyggst starfa einn hjá þessu fyrirtæki og mun ekki hafa neitt starfsfólk.“

Ólafur starfaði sem sölu- og markaðsstjóri Kolibri frá árinu 2014 til 2015. Hann hefur starfað við stafræna vöruþróun í rúman áratug, meðal annars sem framkvæmdastjóri Form5 og vefmarkaðsstjóri hjá WOW air. Þar áður starfaði hann m.a. við vöruþróun hjá mbl.is.

Hann er jafnframt stjórnarmaður hjá Samtökum upplýsingatæknifyrirtækja og hefur gegnt ýmsum öðrum stjórnarstörfum í gegnum tíðina. Hann var meðal annars stjórnarmaður í ÍMARK,  samtökum markaðsfólks á Íslandi. Ólafur  segir að hann noti frítímann sinn í ýmiss konar útvist eins og til dæmis hjólreiðar en hann hafi jafnframt ástríðu fyrir matargerð.

„Ég er mikið nörd að eðlisfari þannig að þegar ég fæ áhuga á einhverju þá tek ég það alla leið. Ég hef mikinn áhuga á hjólreiðum, matreiðslu og útivist.“ Ólafur segir að það verði mikið að gera hjá honum í sumar en hann ætlar meðal annars að ferðast til Ítalíu og Spánar með fjölskyldunni.

„Við fjölskyldan förum í brúðkaup á Ítalíu í sumar. Síðan varð tengdamamma mín sextug á árinu og við förum að því tilefni til Calpe á Spáni í viku,“ segir hann og bætir við að fjölskyldan stefni á að ferðast mikið innanlands í sumar og meðal annars fara í útilegu.

Ólafur Örn er giftur Árdísi Ether, framkvæmdastjóra hjá Eik fasteignafélagi, og eiga þau tvö börn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér