*

laugardagur, 16. nóvember 2019
Innlent 27. september 2019 14:31

Alltaf verið trú okkar uppruna

Marel trónir á toppi lista Viðskiptablaðsins og Keldunnar yfir fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri.

Ritstjórn
Árni Oddur Þórðarson var stjórnarformaður Marel frá 2005 til 2013 en frá þeim tíma hefur hann verið forstjóri félagsins.
Haraldur Guðjónsson

Á síðustu tólf mánuðum hefur hlutabréfaverð í Marel hækkað um 55% og segir það sína sögu um gengi fyrirtækisins síðustu misseri. Í byrjun júní voru hlutabréf í Marel tekin til viðskipta í Euronextkauphöllinni í Amsterdam. Um var að ræða tvíhliðaskráningu því bréfin eru áfram skráð í Kauphöll Íslands. Raunar hefur Marel verið skráð í íslensku kauphöllinni allt frá árinu 1992.

Síðasta rekstrarár var mjög gott hjá Marel. Veltan jókst úr ríflega einum milljarði evra í tæpa 1,2 milljarða. Félagið hagnaðist um 122,5 milljónir evra á síðasta ári, sem er ríflega 26% aukning frá árinu 2017, þegar hagnaðurinn nam tæpum 97 milljónum evra.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, segist ánægður með ganginn á síðasta ári. Raunar má segja að rífandi gangur hafi verið hjá Marel um langa hríð. Árlegur meðalvöxtur tekna hefur verið um og yfir 20% frá skráningu hlutabréfa á markað 1992 til dagsins í dag. Að sögn Árna Odds hefur þessi árangur náðst með nýsköpun, markaðssókn og stefnumótandi yfirtökum.

„Við höfum lært mikið af yfirtökum en þær ásamt stöðugri nýsköpun eru lykilinn að því að fyrirtækið er í dag fremst á sínu sviði á heimsvísu,“ segir Árni Oddur. Árlega fjárfestir Marel um 6% veltu í nýsköpun, og í fyrra nam sú upphæð 74 milljónum evra.

Árið 2005, eða rétt áður en yfirtökuferlið hófst með kaupum á Scanvaegt árið 2006 og Stork Food Systems árið 2008, voru þjónustutekjur Marel einungis um 10% af heildartekjunum en núna eru þjónustutekjurnar ríflega þriðjungur heildartekna Marel. Þetta er mikil breyting og gott dæmi um framþróunina hjá Marel.

Óhætt er að segja að markmið um að ná betur til erlendra fjárfesta með tvíhliða skráningu hafi tekist því Árni Oddur segir að á 24 mánuðum hafi erlend eignaraðild aukist úr 3% í 30%. „Þetta er ekki bara fjármagn heldur er líka þekking á bakvið fjármagnið,“ segir hann.

Fyrirtæki sem Marel skoðar í yfirtökum eru gjarnan fjölskyldufyrirtæki að sögn Árna Odds. „Þau sjá fram á kynslóðaskipti og vantar þá stafrænu tækni sem við búum yfir auk þess sem við erum með sterkt sölu- og þjónustunet um heim allan. Eigendur þessara félaga vilja í mörgum tilvikum ekki fara úr þessari spennandi og ört vaxandi iðngrein þó þau sameini krafta sína við Marel. Með skráningu á markað í evrum í Amsterdam erum við komin með gjaldgeng hlutabréf fyrir slík viðskipti.

Framtíðarsýnin þarf að vera skýr, því hún stýrir öllu sem við gerum,“ segir Árni Oddur. „Það er samt ekki nóg því skilaboðin þurfa einnig að vera skýr, bæði til hluthafa og viðskiptavina sem og starfsmanna. Það þarf að aðlaga reksturinn að þessari framtíðarsýn og við erum sífellt að verða betri í því.“

Árni Oddur segir að styrkleiki Marel allt frá stofnun hafi einmitt verið skýr framtíðarsýn. Í upphafi hafi hún snúist um að auka nýtingarhlutfall í fiskvinnslu á Íslandi og í dag snúist hún að umbreyta matvælamarkaði með sjálfbærni, hagkvæmi og rekjanleika að leiðarljósi. Marel leggi áherslu á að bæta gæði og öryggi matvæla samhliða því að minnka sóun – matar-, vatns- og orkusóun.

„Það má því segja að við höfum alltaf verið trú okkar uppruna og samhliða þeirri staðfestu stækkum við skref fyrir skref í okkar iðnaði,“ segir hann og bætir því við að viðfangsefnið sé að vera sífellt að fjárfesta í mannauði, innviðum og nýsköpun.

„Það er engin spurning að á markaðnum er þörf fyrir okkar hátæknilausnir. Framtíð Marel ræðst af því hvernig fyrirtækinu mun ganga að sinna þessari þörf en sjálfur er ég bjartsýnn. Við ætlum áfram að vera leiðandi á alþjóðavísu í heildarlausnum, tækjum, hugbúnaði og þjónustu við ört stækkandi kjúklinga-, kjöt- og fiskiðnað.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.