Alltof margir launamenn hjá ríkinu heyra undir kjaramenn, að mati Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, og Elínar Bjargar Jónsdóttur, formanns BSRB. Þau lýstu þessari skoðun sinni á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Eins og kunnugt er ákvarðar kjararáð laun þeirra hópa sem undir ráðið heyra í stað þess að þeir semji um það við ríkið.

„Það eru margir hópar þarna undir sem mættu bara semja,“ sagði Gylfi en benti þó á að sumir einstaklingar yrðu að heyra undir slíkt ráð. Nefndi hann þar sem dæmi forseta Íslands og forsætisráðherra. Gylfi sagði að þeir hópar sem heyrðu undir kjararáð væru alltaf að teygja sig neðar og neðar í stjórnsýsluna og ASÍ hefði gagnrýnt þetta.

Elín Björg tók undir rök Gylfa og sagði enn fremur að niðurstöður kjararáðs væru oft úr samhengi við aðrar launahækkanir og óskiljanlegar almennum launamönnum. „Þegar kallað er eftir skýringum þá fást þær sjaldnast,“ segir hún.