Alltof margir einstaklingar og lögaðilar komast upp með að skila ekki framtali, fá síðan á sig áætlanir skattyfirvalda sem aldrei eru greiddar og þegar allt er komið í þrot er einfaldlega stofnað nýtt fyrirtæki á nýrri kennitölu. Þetta segir Óli M. Lúðvíksson, skrifstofustjóri hjá embætti sýslumanns á Ísafirði í viðtali við Tíund, nýútkomnu tímariti embættis ríkisskattstjóra.

Óli segir að vandinn við álagningu opinberra gjalda hafi farið versnandi ár frá ári undanfarna tvo áratugi og nú sé svo komið að eitt aðal starf innheimtuaðila opinberra gjalda sé að innheimta gjöld byggð á áætluðum gjaldstofnunum. Hann gagnrýnir einnig fyrirkomulag varðandi virðisaukaskatt og telur þörf á hertari reglum og meira eftirliti með viðkomandi aðilum.

Þörf á að herða reglur og eftirlit

„Það er alltaf eitt hvað um að menn skrái sig á virðisaukaskattsskrá en hefja svo ekki rekstur. Þeir fá auðvitað á sig áætlanir og enn er það mál innheimtunnar að eltast við vonlausar kröfur. Þarna er ákveðið úrræðaleysi ríkjandi,“ segir Óli. „Að mínu mati á að gera ríkari kröfur til þeirra sem fá virðisaukaskattsnúmer. Því mætti fylgja meiri ábyrgð. Eins og þetta er í dag þá virðist hver sem er geta hafið rekstur og fengið virðisaukaskattsnúmer. Þá vaknar spurning um hvort ekki þurfi að setja þarna strangari skilyrði. Ég tel að ein leið til að bæta skilin sé að auka samtímis eftirlit þannig að hægt sé að bregðast fyrr við þegar í ljós kemur að hlutirnir eru ekki í lagi. Þannig má spara mikla vinnu og ómældan kostnað. Þá tel ég að það megi grípa til afgerandi úrræða fyrr en nú er gert. Til dæmis þegar einhver skilar ekki virðisaukaskattsskýrslu í þrígang, þá væri gott að skattstofur og innheimtumenn hefðu úrræði til að loka númeri. Oftast er enginn rekstur í gangi og því engu að loka. Með bættu samstarfi mætti ná mun betri árangri.“

Of mikið umburðarlyndi gagnvart skattsvikum

Kristín Norðfjörð,  skrifstofustjóri virðisaukaskattsskrifstofu skattstjórans Reykjavík, tekur í sama streng í blaðinu og segir: „Á Íslandi hefur of lengi þrifist ákveðið umburð ar lyndi gagnvart skatt svik um. Í siðmenntuðu þjóð fé lagi verður ekki við það unað að yfirvöld séu úrræða laus gagnvart áætluð um aðilum. Með fáum og einföldum breyting um á lögum um virðisauka skatt getur mikið áunnist,“ segir hún.