Vandræði matvælarisinn Kraft Heinz halda áfram. Sala þess hefur dregist saman og í dag færði það niður virði vörumerkja sinna um 1,2 milljarða dollara. Afskriftin kemur til viðbótar við 15,4 milljarða niðurfærslu vörumerkja í febrúar og lækkun arðgreiðslna

Hlutabréfaverð í fyrirtækinu féll um 14% eftir að það birit hálfsársuppgjör og hefur lækkað um 38% á þessu ári. Miguel Patricio, forstjóri fyrirtækisins, segir félagið hafi verið of upptekið af því að slökkva elda í rekstrinum og þurfi nú að reyna að horfa meira til framtíðar.

Kraft Heinz er einn af mörgum framleiðendum unninna matvara sem lent hafa í vandræðum vegna aukins áhuga neytenda bæði á ferskari og hollari mat og að versla við minni framleiðendur. General Mills, Kellogg og Campbell Soup hafa einnig þurft að sætta sig við lækkandi sölutölur. Kraft Heinz þykir þó hafa orðið verst úti. Ólíkt mörgum keppinautum hefur það lítið gert til að reyna að búa til hollari útgáfur af eldri vörum eða kaupa minni fyrirtæki sem bjóða upp á hollari vörur.

Fjárfestirinn Warren Buffett á 27% hlut í fyrirtækinu eftir sameiningu Kraft Foods og Heinz árið 2015. Hann viðurkenndi fyrr á þessu ári að hafa borgað of mikið fyrir félagið.