Forsætisnefnd Alþingi samþykkti í morgun nýjar reglur um kostnaðargreiðslur og bílastuðning þingmanna sem og um veitingu upplýsinga um þingfararkostnað þingmanna.

Sátu formenn allra þingflokka fundinn með forsætisnefnd þar sem hinar nýju vinnureglur voru samþykktar. Munu upplýsingarnar miðast við 1. janúar 2018 og verða þær uppfærðar mánaðarlega framvegis.

Er búist við að birting upplýsinganna geti hafist á næstu dögum og verði alfarið komin til framkvæmda á næstu tveimur vikum. Síðar verði tekið til athugunar hvernig haga eigi upplýsingagjöf um það sem liðið er.

Í reglunum felast þrjár efnisbreytingar vegna bifreiðakostnaðar:

  • Í fyrsta lagi eru ákvæði um bílaleigubíla gerð skýrari, einkum fyrir þá þingmenn sem falla undir svokallaðan heimanakstur, þ.e. akstur til og frá heimili daglega um þingtímann. Það eru þingmenn sem búa í nágrenni Reykjavíkur (á Suðurnesjum, Vesturlandi, Árnessýslu o.s.frv.). Akstur á eigin bifreiðum, sem kemur til endurgreiðslu, verður bundinn hámarki við 15.000 km.
  • Í öðru lagi eru sett skýrari ákvæði um staðfestingargögn sem eru grundvöllur endurgreiðslu.
  • Loks eru ný ákvæði um með hvaða skilmálum þingmenn geta notað bílaleigubíl.