Verðbréfafyrirtækið ALM Verðbréf hefur gert samstarfssamning við Nordea um sölu á erlendum sjóðum fyrirtækisins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. Þar kemur fram að fyrirhugað afnám gjaldeyrishafta kalli á fjölbreytt úrval erlendra fjárfestingakosta í framtíðinni.

Í tilkynningunni segir að Nordea bjóði upp á mikið úrval af erlendum sjóðum og sé með um 194 milljarða evra undir sinni stýringu. Með samstarfinu opnist nýir fjárfestingarmöguleikar fyrir viðskiptavini til að fjárfesta í hefðbundnum og sérhæfðum eignaflokkum.

ALM Verðbréf hf. er verðbréfafyrirtæki sem starfar samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og hefur haft starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu frá árinu 2010.