Fjárfestingastefna Fjárfestingafélags atvinnulífsins verður að kaupa skuldabréf sem gefin eru út af litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Fjárfestingafélag atvinnulífsins er nýtt félag sem er í umsjá ALM Verðbréfa en fjármagnað af lífeyrissjóðum.

Fjárfestingastefna félagsins er athyglisverð, en félagið mun sérhæfa sig í skuldabréfafjármögnun lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Fjárfestingafélag atvinnulífsins mun þannig kaupa skuldabréf sem eru tryggð með veði í fasteign eða lausafé, gefin út í tengslum við byggingu íbúðar eða atvinnuhúsnæðis með möguleika á langtímafjármögnun, eða ótryggð skuldabréf fyrirtækja með gott lánshæfismat.

Í tilkynningu frá ALM verðbréfum segir að verðbréfafyrirtækið telji að á næstu árum muni hlutfall markaðsfjármögnunar íslenskra fyrirtækja vaxa og þróast í átt að því sem gerist erlendis. Víða erlendis leiki skuldabréfamarkaðurinn stærra hlutverk við fjármögnun fyrirtækja. Það eigi sérstaklega við í Bandaríkjunum, þar sem fjármögnun fyrirtækja fer að miklu leyti fram á skuldabréfamarkaði.

Henti fyrirtækjum vel í því vaxtaumhverfi sem er væntanlegt

Sigurður Kristinn Egilsson er framkvæmdastjóri Fjárfestingafélags atvinnulífsins. Í samtali við Viðskiptablaðið segir hann að stærð félagsins sé um þrír milljarðar núna, en að útgáfan sem gefin verði út til að fjármagna félagið verði um 12 milljarðar. „Þannig að við erum komin með nóg til að fara af stað, en síðan mun þetta stækka með verkefnum, geri ég ráð fyrir,“ segir Sigurður.

Hann segir að þessi fjármögnunarkostur muni verða samkeppnishæfur við aðra fjármögnun, til dæmis bankafjármögnun. „Meðal annars er hægt að bjóða upp á fasta vexti, sem almennt býðst ekki,“ segir Sigurður. „Yfirleitt eru þetta breytilegir vextir sem bankarnir eru að bjóða. Í þessu vaxtaumhverfi sem er framundan, þar sem boðaðar eru frekari stýrivaxtahækkanir, þá getur það verið mjög mikill kostur fyrir fyrirtæki.“

Sigurður segir að ekki sé horft til neinna sérstakra geira í atvinnulífinu, heldur sé horft á verkefnin út frá lánshæfi. „Fjárfestingaráðið er búið að samþykkja fjármögnun á nokkrum verkefnum, og við vonumst til að geta sagt frá því fljótlega,“ segir hann.