Alma íbúðafélag, hét áður Almenna leigufélagið, hagnaðist um 12,4 milljarða króna á síðasta ári, miðað við 155 milljóna tap árið 2020.

Töluverðar breytingar voru gerðar hjá Ölmu á síðasta ári eftir að Langisjór keypti félagið á ellefu milljarða króna. Langisjór er í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna. Í kjölfarið keypti Alma tvö félag af systkinunum, Brimgarða og 14. júní ehf. sem átti 23 atvinnuhúsnæðiseignir og stóran hlut í skráðu fasteignafélögunum, Reitum, Regin og Eik. Á árinu keypti Alma einnig nýbyggða blokk við Elliðabraut 4-10 í Norðlingaholti sem telur 83 íbúðir á um fimm milljarða króna.

Hagnaðurinn er einna helst tilkominn vegna matsbreytinga fjárfestingaeigna upp á 10,2 milljarða króna en matsbreyting nam 149 milljónum króna árið 2020. Þá nam hagnaður af hækkun á verðbréfum um 4,3 milljörðum króna, að mestu vegna eignahluta í fasteignafélögunum Eik, Reitum og Regin. Samstæðan átti yfir ellefu milljarða króna hlut í fasteignfélögunum þremur um áramótin.

„Þróun efnahagsmála á Íslandi setti svip sinn á rekstur og afkomu Ölmu íbúðafélags í fyrra. Á árinu eignaðist Alma dótturfélagið Brimgarða ehf. sem stundar útleigu á atvinnuhúsnæði og verðbréfafjárfestingar. Þessar verðbréfafjárfestingar Brimgarða hækkuðu í takt við hreyfingar á mörkuðum og skiluðu samstæðunni 4,3 milljörðum króna," segir Ingólfur Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ölmu. Ingólfur tók við starfinu á árinu af Maríu Björk Einarsdóttur. Ingólfur er sonur Gunnars Þórs Gíslasonar, stjórnarformanns Ölmu.

„Þá hækkaði bókfært virði fjárfestingareigna um 10,2 milljarða á árinu. Þessi matsbreyting er að mestu til komin vegna almennra verðlagsbreytinga á árinu 2021, lækkandi vöxtum og væntingum um að leiguverð fylgi til lengri tíma hækkandi fasteignaverði og aukningu í kaupmætti. Þessir tveir liðir leika stórt hlutverk í að afkoma félagsins á síðasta ári var jafn mikil og ársreikningur ber vott um. Við erum að sjálfsögðu ánægð með að félagið skili svo veglegum hagnaði, en vekja ber athygli á vægi matsbreytinganna í afkomunni og að ekki er hægt að gera ráð fyrir því að þessi liður hækki svo mikið á milli ára í framtíðinni," segir Ingólfur.

Rekstrartekjur Ölmu námu 4,1 milljarði króna og hækkuðu um 1,5 milljarða króna vegna kaupanna á Brimgörðum ehf. og 14. júní ehf.  „Þegar við skoðum afkomu kjarnastarfsemi félagsins, sem er útleiga íbúðarhúsnæðis, sést að EBITDA hagnaður af þeim hluta starfseminnar var rúmlega 1,4 milljarðar, sem jafngildir einungis 2,8% arðsemi af verðmæti íbúðarhúsnæðis félagsins í árslok," segir Ingólfur.

Í skýrslu stjórnar kemur fram að langtímaleigurekstur hafi gengið vel og ekki orðið fyrir teljandi áhrifum af Covid-19. Vanskil hafi lækkað en einstaklingum bauðst greiðsludreifing vegna áhrifa Covid árið 2020.

Eigið fé félagsins nam 27 milljörðum í árslok en var 12,5 milljarða króna í upphafi ársins.  Eignir Ölmu námu 82 milljörðum króna, og hækkuðu um 35 milljarða á árinu. Þar af voru fasteignir bókfærðar á 67 milljarða króna en voru 45,5 milljarðar í upphafi ársins. Skuldir námu 55,2 milljörðum um áramótin en voru 34,5 milljarðar í upphafi ársins

„Síðasta ár var ár mikilla fjárfestinga og stækkunar efnahagsreiknings. Við fjárfestum fyrir rúma 16 milljarða króna og keyptum meira en 100 íbúðir sem komu til afhendingar á síðasta ári og á fyrstu mánuðum þessa árs. Þá bættist við eignasafnið nokkuð af atvinnuhúsnæði auk óbeinnar þátttöku í leigu á atvinnuhúsnæði með eignarhaldi á skráðum fasteignafélagfélögum," segir Ingólfur.

„Á næstu misserum stefnum við á að stækka eignasafnið áfram og vera leiðandi í uppbyggingu á  heilbrigðum leigumarkaði. Þá viljum við stækka hlutfall umhverfisvottaðra eigna í eignasafninu og auka sjálfbærni í fasteignarekstrinum. Í samræmi við þá stefnu keypti félagið Svansvottað fjölbýlishús með 34 íbúðum í lok síðasta árs. Þá stefnum við að því að vaxtakjör félagsins endurspegli betur lágt áhættustig fjárfestinga þess með aukinni þátttöku stofnanafjárfesta í fjármögnun félagsins,“ er haft eftir Ingólfi í tilkynningu frá félaginu.