Alma íbúðafélag hagnaðist um 3,5 milljarða króna á fyrri helmingi ársins, samanborið við 281 milljónar tap á sama tímabili síðasta árs. Líkt og hjá öðrum fasteignafélögum á tímabilinu er hagnaðurinn að mestu tilkominn vegna matshækkunar fjárfestingareigna sem nam 2,7 milljörðum. Einnig var 1,4 milljarða jákvæð afkoma af eignarhlutum í öðrum félögum. Þetta kemur fram í árshlutareikningi Ölmu.

Langisjór keypti Ölmu íbúðafélag í ár fyrir 11 milljarða króna en kaupin gengu formlega í gegn þann 13. apríl. Á stjórnarfundi Ölmu viku síðar var samþykkt tillaga um að félagið íbúðafélagið myndi kaupa allt hlutafé fjárfestingafélagsins Brimgarðar af Langasjó. Bókfært verð Brimgarða er fært til bókar á 10,9 milljarða í uppgjöri Ölmu. Samhliða kaupunum á Brimgörðum var ákveðið að hækka hlutafé Ölmu um tvo milljarða króna.

„Með nýjum eigendum urðu áherslubreytingar í stefnu félagsins þær helstar að leggja skildi meiri áherslu á að stækka eignasafnið á höfuðborgarsvæðinu, bæta takmörkuðu magni af atvinnuhúsnæði við eignasafnið og að félagið myndi koma í auknum mæli að fjárfestingum í þróunar- og byggingarverkefnum,“ segir í tilkynningu Ölmu.

Óásættanleg arðsemi

Tekjur Ölmu námu 2,1 milljarði á fyrstu sex mánuðum ársins. Þar af féllu 1,4 milljarðar undir leigutekjur af íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Leiguarðsemi íbúðaleigueigna Ölmu á tímabilinu var 3,5% á ársgrundvelli.

„Sú arðsemi er að mati stjórnar félagsins ekki ásættanleg til að réttlæta áframhaldandi fjárfestingu í eignasafni félagsins. Leitast verður við að bæta leiguarðsemina með því að selja óhagkvæmar leigueignir, tryggja að leiguverð endurspegli gæði eigna og markaðsleigu, ná meiri kostnaðarhagkvæmni í rekstri og stækka eignasafnið,“ segir í tilkynningu félagsins.

Í upphafi ársins voru íbúðir Ölmu 1.104 talsins en á fyrri árshelmingi voru 42 íbúðir seldar og 2 íbúðir keyptar. Með kaupunum á Brimgörðum ehf. og 14. júní ehf. bættust við 23 atvinnuhúsnæðiseignir þannig að í lok júní taldi eignasafnið 1.087 fasteignir.

Heildareignir samstæðunnar námu 67,3 milljörðum króna í lok júní, samanborið við 46,9 milljarða í lok síðasta árs. Fjárfestingareignir eru færðar á 55,4 milljarða, eignarhlutir í skráðum hlutabréfum 7,5 milljarðar, þar af 5,4 milljarðar í fasteignafélaginu Eik, og handbært fé var 594 milljónir. Vaxtaberandi skuldir námu 32,5 milljörðum og eigið fé samstæðunnar var um 18 milljarðar. Eiginfjárhlutfallið var því 36,6% í lok júní.

Þann 19. júlí tilkynnti Alma um kaup á 83 íbúðum við Elliðabraut í Norðlingaholti fyrir 5.080 milljónir króna. Í byrjun júlí keypti Alma félagið U26 ehf. af Kaldalóni á 855 milljónir króna. U26 ehf. heldur utan um 16 íbúðir í Urriðaholtsstræti 26 og verða þær  fullkláraðar í þessum mánuði.

Um miðjan júlímánuð tilkynnti fasteignafélagið um að framkvæmdastjórinn María Björk Einarsdóttir hafi sagt upp störfum. Ingólfur Árni Gunnarsson var ráðinn í hennar stað.